136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:02]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í máli flestra nú í umræðunni að höfuðmáli skipti að koma á stöðugleika í íslensku efnahagsumhverfi og þar skipta fjárlög að sjálfsögðu miklu máli til þess að skapa eða leggja ákveðinn grunn að hugsanlegum stöðugleika.

Það fjárlagafrumvarp sem hér er lagt fram ber þess samt sem áður ekki merki að það sé vilji þeirra sem að því standa að leggja grunn að því að íslenskt efnahagskerfi geti þróast með öðrum hætti en verið hefur undanfarna daga, að stuðlað verði að auknum stöðugleika. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram sem meginatriði að gert er ráð fyrir tekjuhalla upp á 57 milljarða. Það á að taka frá framtíðinni 57 milljarða og það er afsakað með því að það sé erfitt árferði.

Eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu og skýringum við það á bls. 13, í Stefnu og horfum, þá er gert ráð fyrir að útgjaldahækkun ríkisins, útgjaldahækkun fjárlaga eigi að vera 16,9% frá fjárlögum árið 2008. Miðað við það sem hefur verið venjan í þinglegri meðferð fjárlagafrumvarps hefur heldur betur orðið hækkun frá því að frumvarpið er lagt fram og þangað til fjárlög eru afgreidd. Á það hefur verið bent, m.a. af hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að þarna eru ýmis gjöld mjög vanáætluð, t.d. til Landspítala – háskólasjúkrahúss og margra fleiri stofnana. Miðað við það er fyrirséð útgjaldahækkun mun meiri en hækkun verðbólgunnar eins og hún er reiknuð út og hefur verið undanfarna mánuði.

Í fyrra afgreiddum við fjárlög fyrir árið 2008 sem voru fjárlög þar sem olíu var hellt á verðbólgueldinn. Á sama tíma og ríkisstjórnin stóð að því að auka ríkisumsvif, þenja út báknið, fjölga ríkisstarfsmönnum, var talað um að það væri gjörsamlega útilokað að búa almenningi, venjulegu fólki sem var að taka lán, sambærileg lánskjör og gerist í nágrannalöndum okkar. Af hverju? Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar svaraði Seðlabankinn þingsályktunartillögu okkar frjálslyndra þar sem fjallað var um að sköpuð yrðu skilyrði til þess að lánamarkaður hér yrði með svipuðum hætti og í nágrannalöndum okkar og fólst svarið í því að slíkt væri ekki unnt miðað við þær aðstæður sem væru í íslensku þjóðarbúi því að það mundi auka þensluna, og eftir því sem á var að skiljast, valda gríðarlegri verðbólgu. Það er gjörsamlega óásættanlegt, virðulegi forseti, að við skulum geta búið í landi þar sem fólk býr við okursamfélag þar sem þeir sem stjórna ferðinni, ríkisstjórnin og Seðlabanki, halda því fram að slíkt setji allt á hliðina. Við horfum upp á það að þrátt fyrir að almenningur í landinu búi við verstu lánakjör í allri gjörvallri Vestur-Evrópu þá skortir samt sem áður verulega á stöðugleikann, það er um að ræða óðaverðbólgu og gengishrun. Það eru því önnur öfl, aðrir þættir sem valda þessu og það er gjörsamlega óásættanlegt að almenningur í landinu skuli þurfa að þola þetta og þurfa að horfa upp á að verðgildi eigna sinna hverfi vegna þess að stjórnvöld, ríkisstjórn og Seðlabanki, skelltu skollaeyrum við og neituðu að hlusta á varnaðarorð okkar frjálslyndra varðandi það atriði að brýna nauðsyn bæri til að koma hér á eðlilegum viðmiðunum varðandi lánakjör almennings í landinu.

Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins fyrir að standa að málum með þessum hætti, fyrir það að ógna efnahagslegu öryggi og frelsi unga fólksins í landinu, fyrir að ógna öryggi fjölskyldnanna í landinu með óábyrgri efnahagsstjórn, sem m.a. hefur falist í þenslufjárlögum í fyrra fyrir árið í ár og öðrum álíka núna. Þetta hefur það m.a. í för með sér að verðbólgan æðir áfram og eignir fólksins verða að engu. Verðtryggingin étur upp eignirnar. Það er óásættanlegt að þannig sé stjórnað í landinu á þessum tíma og það verður að bregðast við og ríkisstjórninni ber skylda til að gera það.

Margir telja að hjálpræðið og bjargráðin komi eingöngu frá ríkinu. Ég er ekki einn þeirra. Ég tel að það sé mikilvægt og skynsamlegt að draga sem mest úr bákninu og fækka opinberum starfsmönnum eftir því sem mögulegt er og ég tek heils hugar undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan, að spurningin er m.a. hvort ekki beri brýna þörf til þess að taka á í sambandi við utanríkisráðuneytið og fækka sendiráðum. Að sjálfsögðu eigum við að sníða okkur stakk eftir vexti.

Ég tel að í stað þess að þenja út báknið svo sem verið er að gera með þessum fjárlögum, og eins og gert var í fyrra, þá væri skynsamlegra að veita fjármuni til að tryggja ákveðið lánsfé til þess að efla framtak og sköpunarmátt einstaklinga og félaga þeirra. Ég tel að þeim mun minni þensla ríkisins, þeim mun minna ríki, þeim mun meiri líkur séu á því að við búum hér við góð lífskjör. Það er misskilningur sem hefur verið haldið fram af talsmönnum Vinstri grænna frá því að Alþingi kom saman að það sem nú er að gerast feli í sér endalok markaðshyggjunnar. Við í Frjálslynda flokknum höfum bent á það að við færum óvarlega að og það væri nauðsynlegt að hafa til viðmiðunar það sem við höfum kallað mannúðlega markaðshyggju. Hefði verið farið að því stæði þjóðin öðruvísi núna en hún gerir, en hitt er annað mál að það eru alltaf sveiflur. Við höfum farið í gegnum margar sveiflur á undanförnum áratugum þar sem hlutirnir þróast með mismunandi hætti. Við erum að sjálfsögðu ekki með fullkomið kerfi en markaðskerfið hefur alltaf verið til tryggingar því að það hefur verið ákveðið frelsi í þjóðfélögum og tryggt það líka að valkostir fólksins hafa verið fyrir hendi og það hefur aldrei orðið þannig að í slíku kerfi hafi þjóðfélög ekki brauðfætt sig eins og þar sem um miðstýrt kerfi sósíalisma er að ræða.

Ég bendi á, virðulegi forseti, að það þarf vissulega slæma stjórn, slæma ríkisstjórn til að koma málum svo illa fyrir sem ríkisstjórnin hefur gert og er að gera. Fiskverð er í hámarki, álverð er í hámarki auk ýmissa annarra góðra hluta í viðskiptaumhverfi okkar. Það hefur aldrei verið ríkisstjórn í landinu frá lýðveldisstofnun fyrr en þessi sem hefur leitt samdrátt, óðaverðbólgu og óbærilega skuldastöðu heimilanna yfir þjóðina þegar svo hefur árað, og hvað er það sem veldur því? Eitt af því er það, hæstv. fjármálaráðherra, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar hefur ekki gætt þess að leyfa einstaklingsframtakinu að blómstra en hefur haldið og talið að bjargráðin komi frá ríkinu. Það hefur verið vikið af þeirri braut sem Sjálfstæðisflokkurinn á að standa fyrir um frelsi og framtak einstaklinganna og það sem hefur heltekið þennan ríkishyggjuflokk eftir slímsetu í ráðherrastólum er að ímynda sér að með því að auka við ríkisútgjöld, bæta við og fjölga ríkisstarfsmönnum sé einhverju bjargað, en það er algjör misskilningur.