136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:13]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þegar við lítum á launaumfjöllunina í fjárlagafrumvarpinu á blaðsíðu 214 er þar sagt meðal annars, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er ekki spáð fyrir um útkomu nýrra kjarasamninga á næsta ári en þó er gert ráð fyrir tæplega 2,5 milljarða kr. fjárheimild á liðnum 09-989 Launa- og verðlagsmál til að mæta breytingum sem kunna að verða á þessum forsendum. Þar er um að ræða varúðarráðstöfun til að treysta betur forsendur frumvarpsins.“

Til að treysta betur forsendur frumvarpsins, hæstv. forseti.

Það er algjörlega ljóst að mínu viti, hæstv. forseti, að það er til venjulegs fólks sem verið er að beina aðgerðum til þess að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimila sem gætu annars orðið. Þar er auðvitað mesti váboðinn atvinnuleysi sem vafalaust verður vaxandi í vetur og ekki fer á milli mála að verðtrygging til viðbótar skuldum heimilanna heldur áfram að eyða öllu eigin fé fólks á fáum missirum ef svo heldur fram sem nú horfir um verðbólgu.

Það er nauðsynlegt að hér verði eðlilegur lánamarkaður fyrir neytendur sem bjóði einstaklingum og fjölskyldum upp á lánakjör eins og þau gerast í okkar heimshluta og væri æskilegt að við reyndum að taka mið af Norðurlöndum varðandi það atriði og horfa til eðlilegra launakjara hér.

Hins vegar, hæstv. forseti, var forgangsröðun Geirs Haardes og Sjálfstæðisflokksins í fyrri ríkisstjórn lækkun og afnám hátekjuskattsins á sama tíma og ofurlaunamenn tryggðu sér árslaun til jafns við 300–400 fullvinnandi verkamenn sem vinna allt árið samanlagt fyrir sömu launum og einn hæst launaði bankastjórnandinn. Svona ofurlaun eru ekki til þess fallin að stuðla að sátt við launamenn þegar kemur að kjarasamningum.

Það má segja, hæstv. forseti, að ofurlaunamenn hafi að mínu viti gjörsamlega fótumtroðið samstöðu fólksins um eðlilegt jafnræði í þjóðfélaginu. Segja má að þeirri þjóðarsamstöðu og sátt sem áður var hafi verið stolið frá þjóðinni. Ég tel, hæstv. forseti, að sjálfstökuliðið eigi að skattleggja með hátekjuskatti og ekki mun af veita nú að auka tekjur ríkissjóðs frá þeim sem ofurlaunin hafa.

Venjulegt fólk stendur frammi fyrir lækkun raunlauna, okurvöxtum, eins og málum er komið, og verðtryggingu sem afleiðingu hárrar verðbólgu. Það stefnir í að margt fólk geti orðið eignalaust ef svo fer fram sem horfir, hæstv. forseti. Við þessu ber að vara en það verður þá líka að virða rétt láglaunafólksins til að reyna að tryggja sér lífskjör. Ég sé ekki, hæstv. forseti, hvernig menn munu taka hér á kjaravandamálum sem upp koma á næstunni þegar Alþýðusamband Íslands og heildarsamtök launamanna annarra fara að skoða sína stöðu eins og þróunin hefur verið í þjóðfélagi okkar. Þetta snýr sérstaklega að þeim sem lægst hafa launin þegar á að reyna að tryggja að fólk missi ekki lífsviðurværi sitt og eignir.

Af fleiru ber að hafa áhyggjur og rétt er að ræða það í þessari umræðu um fjárlögin. Ekki verður til dæmis hjá því komist að nefna þá erfiðleika sem landbúnaður okkar Íslendinga stendur nú frammi fyrir. Íslenskir bændur hafa þungar áhyggjur af stöðu mála og skyldi enginn lá þeim það. Dýrtíðin og efnahagsástandið eru að leggja landbúnaðinn á hliðina. Boðin var 16–18% hækkun á afurðaverði til sauðfjárbænda. Þeir telja reyndar að þessi hækkun nægi hvergi til þess að mæta rekstrarstöðu þeirra og kostnaðarauka og hafa talað um 25–27% hækkun í því sambandi. Þeir styðja mál sitt mörgum rökum sem okkur eru svo sem kunn. Fjármagn, olía, kjarnfóður, áburður, allt eru þetta þættir í útgjaldaliðum í nútímabúrekstri. Allir þessir þættir hafa hækkað gríðarlega á undanförnum mánuðum og talað er um að kjarnfóðurverð og áburður geti jafnvel hækkað um 80–100% milli ára.

Um vexti, verðbólgu og gengisfall krónu þarf ekki svo sem að hafa mörg orð eins og nú árar. Flestir vita orðið hver staðan er. Sú þróun mála veldur geysilegum búsifjum einnig hjá bændastéttinni. Ég hygg að staðan sé einna verst hjá þeim bændum sem nýlega hafa hafið búskap og eru skuldsettir. Það á reyndar jafnt við um kúabændur að því er varðar skuldsetninguna sem þarf til að hefja búrekstur. En þeir hafa hins vegar verið hvattir til hagræðingar og uppbyggingar á búum sínum á undanförnum árum. Víða hefur verið ráðist í miklar fjárfestingar til kaupa á framleiðslukvótum mjólkur og til að nútímavæða mjólkurframleiðsluna. Bændur kvarta nú yfir miklum fjármagnskostnaði og dýrum afurðalánum.

Það getur enginn rekstur búið við núverandi fjármagnskostnað. Hvar skyldi þetta hafa verið sagt? Meira að segja hæstv. landbúnaðarráðherra viðurkenndi þetta á opinberum vettvangi á fundi í Búðardal sem ég veit að nokkrir þingmenn hér í salnum sóttu. Mönnum er sem sagt vandinn ljós en ég hef ekki orðið var við neinar tillögur frá landbúnaðarráðherra til þess að takast á við vanda landbúnaðarins. Jú, ég hef heyrt að ríkisstjórnin hafi ætlað að beita sér fyrir að tryggja lánalengingar á markaði. En hvar eru þær efndir? Bændur sjálfir nefna hins vegar dýr afurðalán og benda á Byggðastofnun í því sambandi. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég hef miklar áhyggjur af stöðu landbúnaðarins. Ég tel að landbúnaðurinn sé mikilvæg grein fyrir okkur sem þjóð og að mikil verðmæti felist í því fyrir lífið í landinu að halda landinu í byggð þannig að þar búi fólk og stundi atvinnurekstur. Ég held að það hafi verið nauðsynlegt að vekja athygli á þessari stöðu, hæstv. forseti, nú við fjárlagaumræðuna því að þetta er eitt af stóru vandamálunum sem við stöndum frammi fyrir á næstunni.

Það er líka rétt, hæstv. forseti, að víkja örfáum orðum að sveitarfélögunum. Þar er vandinn geysilegur. Mörg sveitarfélög hafa skuldsett sig á undanförnum árum og ári, meðal annars með því að taka erlent lánsfé til framkvæmda, sem nú veldur því að viðkomandi skuldir margfaldast og menn sjá hreinlega ekki fram úr því hvernig við eigi að bregðast. Reyndar eru merki um að menn neyðist til að loka algjörlega fyrir framkvæmdir. Nýlega birtist frétt í Bæjarins besta á Ísafirði, í Ísafjarðarbæ, þar sem meðal annars var skýrt frá því að þar yrði að draga verulega úr framkvæmdum.

Nú er eðlilegt í sjálfu sér þegar breytingar verða í þjóðfélagi að bregðast svoleiðis við. En ég vek athygli á því að þegar veikar byggðar missa niður þjónustustig sitt (Forseti hringir.) þá laða þær ekki til sín fólk.