136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Staða þjóðarinnar er vissulega erfið í augnablikinu, til skamms tíma. Mér fannst ræða hv. þingmanns ótrúlega svartsýn, óábyrgt svartsýn, frú forseti. (Gripið fram í.) Þetta er ekki til þess að bæta geð þeirra sem eiga í erfiðleikum í dag og sjá kannski ekki fram úr erfiðleikunum. Það er nefnilega heilmikið í spilunum fyrir þessa þjóð. Við þurfum að standa saman með bjartsýni að leiðarljósi, horfa fram á veginn og vita að álið, fiskurinn og ferðaþjónustan gengur glimrandi vel sem stendur. Það mun innan ekki mjög langs tíma styrkja krónuna og bæta stöðuna. Þetta er alls ekki svona svart eins og hv. þingmaður vill vera láta, alls ekki.

Mér finnst þetta ábyrgðarhluti og landlæknir hefur bent á það að menn megi ekki tala svona óábyrgt, að menn megi það ekki í núverandi stöðu. Margt fólk hefur miklar áhyggjur og menn eiga ekki að vera að auka á þær með svona tali. Það er nefnilega heilmikill þróttur í þessari þjóð. Við eigum mjög sterkan mannafla, mannauð, og við eigum miklar auðlindir, þessi þjóð. Við erum orkuútflutningsþjóð. Það vantar orku í heiminum og það er mjög margt sem er jákvætt bara rétt handan við hornið, eftir eitt eða tvö ár. Við þurfum að segja fólki það.