136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Utan úr heimi berast þær fréttir að þar sé mjög mikið að gerast og flest neikvætt. Það er mjög mikilvægt í þessum ólgusjó að íslenska þjóðin standi saman í þeim bát sem hún er í og rói en sé ekki að rífast innbyrðis. (Gripið fram í: Þá þarf góðan formann.) Það þarf góðan formann (Gripið fram í.) og það þarf góðan vilja allra, og menn skulu endilega muna það að þeir breyta ekki fortíðinni. Sumir, og allt of margir, virðast halda það. (Gripið fram í: En sumir bera ...) Við þurfum að skoða núverandi stöðu, stöðuna í núinu, og við þurfum að finna lausnir þannig að við komumst yfir ólgusjóinn og komumst yfir á lygnan sjó hinum megin því að hann er hinum megin. Það er lygn sjór hinum megin, bara vegna þess hvað þjóðin er óskaplega sterk og hvað hún er vinnusöm og hvað mikill mannauður liggur hjá þjóðinni og svo eru það þær auðlindir sem við eigum, fiskur, orka og matur (Gripið fram í: Hvað á að gera ...) og ferðamannaþjónustan og fjármálageirinn. (Gripið fram í: Hvað á að gera núna?) Að því þurfum við öll að vinna og finna lausnir á, ekki rífa niður með svartsýni. Það er ekki til bóta. Við hv. þingmenn sem og aðrir sérfræðingar í landinu, þurfum að vinna saman að lausnum frá og með deginum í dag, ekki horfa aftur í tímann til þess hvað einhver hafi sagt eða einhver hafi gert einhvern tíma. Það getum við rætt þegar við erum komin á lygna sjóinn. Þá getum við farið í söguskoðun og fundið út hver er sekur og allt svoleiðis.

Núna þurfum við að vinna saman að því að finna lausn til að komast yfir ólgusjóinn á lygnuna hinum megin. (JBjarn: Eigum við að halda áfram að einkavæða ...?)