136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:28]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki eina einustu tillögu heyrði ég í þessu máli um hvað við ættum að takast á við hér á landi, hvernig við ætluðum að hjóla beint inn í verkið. Ég skal alveg taka undir það, hv. þingmaður, að ég skal sitja með þér á rökstólum um að finna út hvert við ætlum að fara og í hvaða verk við ætlum að stefna og reyna þá að skapa hér aukna bjartsýni og auknar tekjur. Ekki skal standa á því. En menn geta ekki leyft sér að skreppa út í heim þegar rökræðan hér heima stendur ekki undir sér.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd í 17 ár, stjórnað hér forsætis- og fjármálaráðuneyti. (Gripið fram í.) Ha! Nei. Ég breyti því ekki, því miður. (Gripið fram í.)Við erum ekki að breyta því. Þið verðið enn þá við völd í þrjú ár ef að líkum lætur og ég á von á því að hv. þingmaður haldi áfram að tala hér í hring á þessu kjörtímabili sem núna er að líða.

Menn þurfa að koma með ákveðnar tillögur um það hvernig þeir ætli að skapa nýja atvinnu og hafa um það hugmynd. Ég hef haft alveg hugmyndir um að hægt væri að auka tekjur í þjóðfélaginu á tiltölulega örskömmum tíma um 50–60 milljarða kr. En Sjálfstæðisflokkurinn trúir því að þetta þjóðfélag sé nú þannig í stakk búið að það sé svo auðvelt að búa við 130 þúsund tonna þorskafla að við eigum bara að gera það því við séum í svo ofsalega góðum málum. Við eigum að halda öllu óbreyttu, halda áfram að berja niður lífskjörin.

Hv. þingmaður. Ég fer fram á það að næst þegar þú kemur í andsvar um hvernig eigi að auka tekjur í þjóðfélaginu að þú komir með tillögur um það hvernig eigi að gera það. Við skulum ræða þær.