136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:41]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir ræðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar um öll þau góðu mál sem nefnd eru í frumvarpinu og verkefnaþætti sem við viljum að allt fari vel með. Hins vegar er það svo að forsendur fjárlagafrumvarpsins eru ekki fyrir hendi eins og verið er að fjalla um og þess vegna er þýðingarlítið að fara út í slíka efnislega umræðu.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi t.d. veitt athygli stöðu sveitarfélaganna. Við höfum verið á fundum landshlutasamtaka sveitarfélaga þar sem bent hefur verið á að þær 1.400 milljónir sem settar voru í jöfnunarsjóð til sveitarfélaganna, þ.e. til viðbótar, eru ekki í frumvarpinu. Auk þess hefur tekjugrunnur jöfnunarsjóðs lækkað verulega þannig að það vantar kannski þrjá eða fjóra milljarða í sjóðinn til tekna sveitarfélaganna frá því sem var á þessu ári, það er grafalvarlegt mál. Ég spyr því hv. þingmann hvort hann hafi ekki tekið eftir þessu og hvort honum finnist það vera ásættanleg afgreiðsla af hálfu fjármálaráðherra. Það er fyrirsjáanlegt að þetta skapar mjög slæma stöðu og getur í rauninni aldrei gengið upp. Þetta er eitt dæmi um að sett er fram fjárlagafrumvarp sem er fyrir fram ómarktækt.