136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:45]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sá er munurinn á mér og hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að hann situr jú í stjórnarflokknum og ég veit ekki annað en að formaður Sambands sveitarfélaga og fulltrúar þess hafi átt ítrekaða fundi með fjármálaráðherra á árinu og allt fram á síðustu daga til að benda á þetta. Þetta er svo augljóst.

Þetta eitt sýnir bara hversu illa unnið þetta frumvarp er í raun og þau rök sem hv. þingmaður færir að þetta eigi að skoðast seinna. Forsendur fyrir þessari fjárþörf liggja svo sannarlega fyrir auk þess sem jöfnunarsjóðurinn skerðist til viðbótar vegna samdráttar í tekjum ríkisins sem er hluti af tekjustofni sjóðsins.

Ekki á að þurfa að takast á um sjálfsagða hluti í fjárlaganefnd ef pólitískur vilji er fyrir því að sveitarfélögin fái þessar tekjur áfram eins og verið hefur og þau verða að fá, því að þau eru einhliða upp á ríkisvaldið komin. Nóg stendur út af samt til að semja um og fyrir fjárlaganefnd til að taka á varðandi vanefndir af hálfu ríkisvaldsins gagnvart sveitarfélögunum eins og við þekkjum báðir.

Frú forseti. Þetta er því miður eitt dæmi um slíkt og sýnir að fjárlagafrumvarpið sem slíkt, forsendur þess og hvernig það er fram sett, er ekki mikið í takt við þann raunveruleika sem fólkið og sveitarfélögin í landinu standa frammi fyrir og okkur ber skylda til að taka á. Ég skal ekki liggja á liði mínu og við vinstri græn við að flytja hér tillögur og standa að því að styrkja og efla fjárhag sveitarfélaganna. Alls ekki.