136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:47]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það hafi komið fram í máli mínu fyrr að fjárlögin eru ekki samin af fjárlaganefnd. Þau eru ekki samin af ríkisstjórnarþingmönnum. (Gripið fram í: Þetta er ríkisstjórnarfrumvarp.) Það er klárlega. Það er framkvæmdarvaldið og ríkisstjórnin sem leggur til afgreiðslu fyrir Alþingi Íslendinga fjárlög fyrir árið 2009. Það kom ágætlega fram með hvaða hætti þau eru unnin og hvaða álitamál fara til fjárlaganefndar og til okkar þingmanna, þar með talið stjórnarandstöðunnar. Og þetta er eitt af þeim málum, þ.e. sveitarstjórnarpakkinn, sem þar mun koma til umræðu.

Það kemur mér verulega á óvart að hv. þm. Jón Bjarnason skuli kveinka sér undan því að eiga að fara að fjalla um þetta og lýsa eftir því að við afgreiðum þetta mál mun lengra áður en það kemur til þingsins svo við getum örugglega neglt þetta þannig niður að menn hafi engin áhrif á það í meðförum þingsins. (Gripið fram í.)Sjálfur hef ég ekki verið talsmaður þess og tel eðlilegt að við fáum þetta til vinnslu og fáum inn hugmyndir stjórnarandstöðunnar og ég treysti á að hún komi þar einlæglega að og flytji tillögur, bíði ekki þar til lokaniðurstaðan er komin þannig að þeir geti þá kvartað að því loknu. Ég treysti á að það verði þannig og hef enga ástæðu til að ætla annað. Ég held að menn hafi unnið heilt í fjárlaganefnd og reynt að leggja málum þar gott lið. Það er okkar að finna út úr því með hvaða hætti sveitarfélögin verða fjármögnuð að fengnum upplýsingum um stöðu þeirra nákvæmlega og við munum væntanlega gera tillögur um það. En það kemur mér á óvart að hv. þm. Jón Bjarnason skuli auglýsa eftir því að við tökum afstöðu fyrir hann fyrir fram.