136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:49]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir um margt ágæta ræðu og ég er sammála því mati hans að verkefnið á næstu mánuðum og missirum verður einmitt að verja hag heimilanna og hag samfélagsins alls í þeim ólgusjó sem nú ríður yfir.

Það er einfaldlega þannig að við notum ekki sama peninginn nema á einum stað. Það fjármagn sem ríkisvaldið hefur til ráðstöfunar er mjög takmarkað og kannski enn takmarkaðra en það lítur þó út fyrir í þessu fjárlagafrumvarpi og margt sem bendir til að hallinn þar sé jafnvel vanáætlaður miðað við þann ólgusjó sem nú ríður yfir. En það skiptir mjög miklu máli í því að allir taki á saman. Þess vegna kallaði ég eftir viðbrögðum hv. þingmanns við þeirri tillögu minni að ríkisstofnanir verði ekki síður en heimilin í landinu og fyrirtækin látin mæta kreppunni í stað þess, eins og gert er ráð fyrir í núverandi fjárlagafrumvarpi, að bæði minnkandi tekjur þeirra vegna gengislækkunar og versnandi kjör þeirra vegna verðbólgu verði algjörlega bætt. Fjárlagafrumvarpið gerir í rauninni ráð fyrir því að bæta þetta að fullu og reyndar sem ég get ekki alls kostar skilið í fjárlagafrumvarpi 2009 er gert ráð fyrir að koma þar inn með bætur vegna verðbólgu ársins 2008 sem ég hefði haldið að ættu heima inni í fjáraukalagafrumvarpi ef þær ættu á annað borð rétt á sér.

En ég kalla eftir svörum hv. þingmanns um það hvort hann telji þetta rétt ráðslag. Ég er með á því að hann samdi ekki þetta fjárlagafrumvarp eins og hann benti á hér fyrr. En afstaða stjórnarmeirihlutans til stefnumarkandi atriða eins og þessara, og þá um leið þeirrar stefnu fjárlagafrumvarpsins að aðhaldsaðgerðir frumvarpsins hljóði aðeins upp á (Forseti hringir.) 2 milljarða eða rúmlega 1%, skiptir miklu máli.