136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að við erum sammála um það, hv. þm. Bjarni Harðarson og ég, að verja hagsmuni heimilanna. Það er auðvitað meginverkefnið okkar í því sem fram undan er. Það er augljóst að það verður samdráttur í atvinnulífi. Við erum þegar farin að sjá teikn um það og það verður verkefni ríkisvaldsins samhliða því að við verðum að höndla út frá ytri aðstæðum að reyna að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Það er auðvitað liður í því að fara ekki í harðan niðurskurð á ríkisstofnunum á sama tíma með fækkun á fólki eða samdrætti. Það er liður í því að reyna að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og tryggja afkomu fólks að ríkisvaldið haldi hlutunum gangandi og taki inn í fjárlög og viðurkenni þann raunkostnað sem verður að greiða þar. Við erum ekki að fást við neitt annað en það sem þegar er komið og er búið að afgreiða. Það er ekki verið að bæta neinu við fram í tímann. Þannig að ef menn ætla að fara að draga saman eða mæta kreppunni með einhverjum hætti eins og hv. þingmaður er að biðja um þá hlýtur það að þýða niðurskurð hjá ríkinu. Ég tel ekki vera rétta tímann nú. Það hefði átt að gerast í góðærinu og það verða aðrir flokkar að svara fyrir það af hverju það var ekki gert.

En varðandi það að ríkisstofnanir geti engu að síður tekið verulega á í kreppunni þá nefndi ég það í minni ræðu að það þarf auðvitað að ná samstöðu um það að fresta hækkunum á ýmissi þjónustu, gjaldtökum hins opinbera, reyna eins og mögulegt er innan þeirra marka sem við ráðum við að reyna að hindra það að þessi spírall eða hringrás verðlags og verðbólgu fari í gang af fullum krafti. Það verður auðvitað líka umræðan í kjarasamningum og öðru slíku.

Þetta er verkefnið sem fram undan er. Ríkissjóður á auðvitað að taka á í kreppunni en það verður ekki gert með því að falsa tölur eða draga saman í ríkisrekstrinum akkúrat á þessu augnabliki.