136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Þetta hefur verið ágæt umræða, hún hefur að sjálfsögðu litast mikið af því efnahagsástandi sem við erum í þessa dagana. Það er ekki óeðlilegt því að staða efnahagsmála hefur auðvitað gríðarlega mikil áhrif á það hvernig fjárlagafrumvarp er lagt fram og hvernig fjárlög við afgreiðum á endanum. Að sama skapi hefur fjárlagafrumvarpið áhrif á það hvernig efnahagsumhverfið þróast og breytist á næstunni þó að auðvitað sé fjöldamargt annað sem hefur heilmikil áhrif á það líka.

Ég hef ekki orðið var við að það sé mikil gagnrýni á að þetta frumvarp sé lagt fram með halla. Ég skynja það að þingheimur hefur skilning á því í þeirri stöðu sem við erum í núna að þá sé óumflýjanlegt að fjárlagafrumvarp sé lagt fram með halla. Mér finnst reyndar líka ánægjulegt að skynja það að þingheimur er þeirrar skoðunar að þrátt fyrir erfiðleika í þjóðfélaginu eigi það ekki að vera réttlæting fyrir því að útgjöld hvers konar þenjist út bara vegna þess að auka þurfi umsvifin. Það verði að fara í það á efnislegum forsendum hvað gert er og að þeir hlutir sem við setjum fjármunina í gagnist okkur í þeirri baráttu sem við erum í við að styrkja efnahagsumhverfið.

Þess vegna er það auðvitað fjárlaganefndar að fara vel ofan í þær tillögur sem eru í fjárlagafrumvarpinu og lagðar fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar því að auðvitað er það aldrei svo að allir hlutir séu fullkomnir þegar þeir eru lagðir fram í þinginu og það er eðlilegt og rétt hlutverk þingsins að fara ofan í þessa hluti og ef þar er ekki allt eins og menn telja réttast þá gerum við á því breytingar.

Ég endurtek þakkir mínar og óska eftir góðu samstarfi við fjárlaganefnd í þeirri vinnu sem fram undan er og að við náum að afgreiða fjárlögin á tilsettum tíma eins og undanfarin ár.