136. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[17:09]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Engum okkar sem sleitulaust höfum staðið í miklu og ólýsanlegu ati síðustu sólarhringana munu nokkurn tímann, frekar en öðrum Íslendingum sem nú eru að heyra fréttirnar, líða úr minni þeir dagar og sólarhringar sem að baki eru — sú staða sem upp er komin og varð ekki fyllilega ljós fyrr en líða tók á daginn í gær.

Engum dylst að staðan er afskaplega þung og hefur verið að þyngjast og við erum að afla heimilda hér til að bregðast við ef staðan verður enn þyngri. Ég vil hins vegar segja það skýrt að ég er sannfærður um það á þessari stundu að þessar heimildir mun ekki þurfa að nota í öllum tilvikum. Ég hef góðar ástæður til að ætla að sumir bankanna okkar muni rífa sig í gegnum storminn. Það er lykilatriði að það liggi skýrt fyrir.

En við horfum núna á fordæmislausar efnahagslegar hamfarir ríða yfir heimsbyggðina og í umræðum síðustu vikna voru notaðar samlíkingar við heimskreppuna miklu 1929 og 1930. Nú eru menn farnir að leita enn aftar þegar horft er til þess fordæmislitla gjörningaveðurs sem nú geisar yfir fjármálastofnanir og fjármálakerfi heimsins, og fellir nú banka tugum saman um allan heim. Þessir atburðir á alþjóðamörkuðum hafa leitt okkur inn á þann örlagadag sem við lifum nú, Íslendingar, þegar við stöndum frammi fyrir því sem við höfum lengi vitað að hlutfallsvandi á milli banka og samfélags getur skapað aðstæður sem nú eru upp komnar þó að enginn maður hafi haft hugmyndaflug til að ímynda sér að aðstæður yrðu svo alvarlegar sem þær eru núna.

Laust fé þurrkast upp, vantraust á mörkuðum er algjört. Allt var gert um helgina til að leita leiða, og þá meina ég allt, til að bankarnir, þeir sem verst munu standa, komi sér út úr þessum aðstæðum. En við getum ekki teflt þjóðinni sjálfri í tvísýnu í þeim aðgerðum, það liggur bara þannig fyrir. Það þekkja það allir að við búum við takmarkaðan forða, við erum lítil og fámenn þjóð og getum ekki þegar á reynir teflt á tæpasta vað með þá hagsmuni og peninga almennings.

Staða fjármálakerfisins er þessi: Lánalínur lokast og lindir fjármagns þorna upp og við verðum að vinna úr þeirri stöðu. Á þessu augnabliki sem við stöndum hér í þinginu og samþykkjum og vinnum að neyðarlögunum sem hér eru samþykkt — róttækari lögum en þingið hefur áður fjallað um og farið með í gegn — erum við að sjálfsögðu að hefja upphaf að endurreisnarstarfi, að endurreisn fjármálakerfis okkar. Um er að ræða víðtækar valdheimildir til að endurskipuleggja fjármálakerfið og fyrst og fremst, ef aðstæður verða alvarlegri, að koma í veg fyrir að bankarnir loki, greiðslukerfið frjósi eða hrynji og verði ekki virkt.

Meginmarkmið aðgerðanna hér í dag og í kvöld er að kvöldið og nóttin nýtist til þess að Fjármálaeftirlitið fái þessar heimildir og tryggi að ef vandi þeirra verst stöddu er sá sem talið er sé hægt að koma í veg fyrir að bankar verði lokaðir á morgun og greiðslukerfin frjósi. Félagsmálaráðherra hefur nú þegar sett af stað vinnu við samræmda þjónustumiðstöð um ráðgjöf og velferðarþjónustu fyrir þá sem verst fara út úr þeim ósköpum sem yfir okkur ganga og fyrir þá sem standa frammi fyrir mestu erfiðleikunum þrátt fyrir þær aðgerðir sem stjórnvöld grípa til.

Meginmarkmiðin í frumvarpinu, fyrir utan hinar víðtæku og yfirgripsmiklu heimildir Fjármálaeftirlitsins til þess að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja, eru að tryggja hagsmuni íslensks almennings, tryggja almannahagsmuni og fjármálalegan stöðugleika, tryggja hann og endurreisa. Megininntakið í þessu er það sérstaklega að við höfum lýst því yfir fortakslaust að við höfum lýst því yfir að allar innstæður í íslenskum bönkum á Íslandi eru tryggðar að fullu og án hámarks. Enginn þarf að óttast um innstæður sínar. Það er algjörlega á hreinu, því hefur margoft verið lýst yfir og hæstv. forsætisráðherra rakti það enn og aftur í ávarpi sínu hér í kvöld. Þá er lagt til að innstæður verði forgangskröfur við gjaldþrotaskipti sem er mjög mikilvægt ákvæði. En síðast en ekki síst er það það sem snýr að fólkinu í landinu og þeim þúsundum sem nú hugsa um stóru lánin sín, hvað verði um íbúðalánin í bankanum, lánin sem tekin voru á síðustu missirum, í þeim bönkum sem hugsanlega kunna að lenda í þessu þroti. Það er því gríðarlega mikilvægt að hér er lagt til að lögfest verði heimild til Íbúðalánasjóðs til að yfirtaka húsnæðislán í öllum íslenskum fjármálastofnunum — þetta er gríðarlega mikilvægt ákvæði.

Auk þess að vernda innstæður sparifjáreigenda takmarkalaust, að fullu, er þetta ákvæði, að Íbúðalánasjóður fái heimild til að yfirtaka og kaupa öll íslensk fasteignalán í öllum fjármálafyrirtækjum á landinu, ef svo fer sem hugsanlega gæti farið, og við horfum að sumu leyti fram á, þá geti það gerst og orðið svo, vegna þessara heimilda, að Íbúðalánasjóður fólksins eignist íbúðarlánin. Með þessum ákvæðum sérstaklega tryggjum við ýtrustu hagsmuni almennings.

Ýmsu er ósvarað fyrir almenningi eins og hvað varðar innstæðutryggingarnar — margir spurðu sig í dag eftir flugufréttir um að innstæður barna undir 18 ára aldri, sem væru undir lögaldri, væru ekki tryggðar. Svarið við því er afdráttarlaust: Þær innstæður eru tryggðar. Allar innstæður á kennitölu eru tryggðar. Séreignarsparnaðurinn er tryggður og svo mætti lengi telja.

Þjónustumiðstöðvarnar, sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur nú hafið undirbúning að, sem eiga að veita fólki liðsinni og áfallahjálp, þeim sem munu verða fyrir mestu áföllunum, munu hafa allar þessar upplýsingar á takteinum þegar á reynir. Auðvitað er þetta áfall fyrir okkur öll. Það eina sem við getum gert á þessari stundu er að lágmarka skaðann eins og kostur er, tryggja að hagsmunir fólksins, almannahagsmunir, séu varðir og verndaðir í hvívetna. Til þess höfum við ýmis ráð og þau ráð er að finna í þessum bandormi sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir og unnið hefur verið að bókstaflega myrkranna á milli.

Auðvitað verða áhrifin af því áfalli mikil og langvarandi en við getum gert gríðarlega margt til að koma í veg fyrir að áföllin verði meiri og alvarlegri fyrir fólkið í landinu. Við getum búið svo um hnútana, í samstilltu átaki okkar allra, að verja hagsmuni fólksins og koma í veg fyrir að þorri landsmanna lendi í erfiðleikum þegar til lengri tíma er horft. Auðvitað verða þetta erfiðir dagar ef til þess kemur að greiðslukerfi virka ekki o.s.frv. en við þurfum öll að halda ró okkar, sýna yfirvegun og stillingu á meðan þingið er að ljúka þeim frumvarpsdrögum sem hér liggja fyrir, á meðan við erum að greiða úr flækjunni, á meðan ástandið er að birtast og taka á sig mynd og við förum að sjá í gegnum þá þoku sem umlukið hefur fjármálakerfi okkar Íslendinga eins og fjármálakerfi allrar heimsbyggðarinnar á síðustu dögum, vikum og mánuðum. Það gjörningaveður sem ég nefndi hér áðan að hefði gengið yfir fjármálakerfi heimsins hefur ekki gert annað en að ágerast og hefur orðið að þeim fellibyl sem nú fer yfir og hefur orðið þess valdandi að fjöldi banka um allan heim hefur lent í þessu þroti.

Munurinn á okkar stöðu og sumra landa sem lent hafa í þessu fyrr og að sumu leyti harðar en við á fyrri stigum er að þessar víðtæku heimildir hafa verið til staðar. Við þurftum að koma okkur upp þessum heimildum þegar þessar aðstæður sköpuðust og við verðum að gera það allra besta úr því til þess að tryggja að allt gangi sinn vanagang í íslensku þjóðfélagi strax í fyrramálið þrátt fyrir það áfall sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt frá að dynji yfir fjármálakerfið. Við verðum að sýna æðruleysi og ró gagnvart þessum alvarlegu aðstæðum, vinna úr þeim og gera það allra besta úr þeim. Það getum við svo sannarlega gert, þetta er ekki svartnætti þó að staðan sé alvarleg. Við munum vinna okkur í gegnum þetta og þar liggur frumvarpið — með innstæðutryggingum, heimildum til Íbúðalánasjóðs til að kaupa fasteignaskuldir í öllum íslenskum fjármálafyrirtækjum — algjörlega til grundvallar.