136. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[17:29]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við stöndum öll frammi fyrir því í dag að takast á við það að lágmarka skaðann sem íslensk þjóð getur orðið fyrir, koma í veg fyrir að hér verði fjármálakrísa og tryggja að fjölskyldurnar í landinu haldi eignum sínum eins og framast er kostur, tryggja inneignir fólks, tryggja séreignarsparnaðinn fyrir fólkið í landinu og leggja fram varnir með þessu lagafrumvarpi sem hér hefur verið kynnt til þess að geta brugðist við.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að við í Frjálslynda flokknum höfum ekki átt neina aðild að ríkisstjórnum á undanförnum árum. Við erum líka að upplifa það að vera kallaðir til eins og aðrir stjórnarandstöðuflokkar þegar málin eru komin í óefni. Menn voru kallaðir hér til fyrir níu dögum síðan, korter fyrir tólf á miðnætti, til að segja þeim hvað ætti að gera við Glitni bankann þá. Það eru ekki endilega líkur á því að mál fari með þeim hætti sem þá var lagt upp með.

Við í stjórnarandstöðunni erum kallaðir til í dag til að segja okkur hvað menn hafa verið að fjalla um undanfarna daga. Okkur er sýnd sú leið sem ríkisstjórnin hyggst fara. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég tel að eðlilegt hafi verið að kalla menn fyrr til skrafs og ráðagerða um þessi mál. Við munum hins vegar ekki leggja stein í götu þess máls sem hér er lagt fram varðandi málsmeðferð og framgang í þinginu. Við munum greiða því atkvæði að þessi mál komi sem allra fyrst til nefndar þannig að menn geti farið yfir rök með og móti í þeim lagagreinum sem hér er lagt upp með því að öll viljum við lágmarka skaðann.

Hins vegar er alveg hægt að segja, hæstv. forseti, að það er afar sérstakt þegar svo alvarlegir tímar eru uppi sem hér birtast í dag með sérstöku ávarpi hæstv. forsætisráðherra til þjóðarinnar að menn skuli þá ekki leita þess sem ég vil leyfa mér að kalla raunverulegs samráðs, líka við stjórnarandstöðuna, þ.e. ekki aðeins að við séum kallaðir til í lok verksins til að kynna okkur það sem þá liggur á borðinu. Ég held að hitt verklagið sé betra, hæstv. forseti.

Við munum, eins og ég sagði áðan, greiða því atkvæði að þetta mál gangi til nefndar þannig að hægt sé að vinna það hratt. Þetta eru jú neyðarlög sem hér er verið að leggja fram og hæstv. forsætisráðherra orðaði það svo að við værum að takast á við efnahagslegar hamfarir í ávarpi sínu til þjóðarinnar. Auðvitað er mikil vinna fram undan þegar búið verður að afgreiða þessa lagasetningu og margt þarf að skoða og gaumgæfa og það er alveg ljóst að hluthafar í íslenska bankakerfinu gætu borið verulega skarðan hlut frá borði. Okkur ber að vernda hagsmuni landsmanna í heild og líta sérstaklega til þess að fara ekki þannig frá þessu máli að þjóðin sitji uppi með verulegar skuldbindingar til langs tíma, verulegar skuldbindingar sem hefðu getað haft veruleg áhrif á efnahag okkar til áratuga jafnvel ef allt færi á versta veg. Hér er þess vegna verið að bregðast við efnahagslegum hamförum og hægt er að taka undir það að við erum að setja hér neyðarlög.

Sem betur fer eigum við Íbúðalánasjóð og væntanlega getum við nýtt okkur hann til að hjálpa skuldugum húsbyggjendum, meðal annars með því að yfirtaka lán inn á Íbúðalánasjóðinn frá bankakerfinu. Vonandi tekst okkur að leysa hlutina þannig að íslenskar fjölskyldur standi sem best eftir þessar aðgerðir okkar núna.

Hæstv. forseti. Hvaða afstöðu við tökum í Frjálslynda flokknum eftir að málið hefur komið út úr nefnd mun koma í ljós. Það þarf auðvitað að ræða margt í þessu máli. Þó að ríkisstjórnin hafi setið með þetta mál í einhverja daga þá á það ekki við um stjórnarandstöðuna. Við munum að sjálfsögðu spyrja spurninga og krefjast svara í meðförum málsins í nefnd. En hitt er alveg ljóst að við viljum öll leggjast á árar til að lágmarka skaða íslenska þjóðfélagsins.