136. löggjafarþing — 6. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[21:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta viðskiptanefndar um frumvarp til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónínu S. Lárusdóttur og Áslaugu Árnadóttur frá viðskiptaráðuneyti, Jónas Fr. Jónsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Tryggva Herbertsson frá forsætisráðuneyti, Davíð Oddsson og Sigríði Logadóttur frá Seðlabanka Íslands, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Eirík Tómasson prófessor frá Háskóla Íslands, Þórð Friðjónsson frá Kauphöll Íslands, Harald Birgisson, Frosta Ólafsson og Finn Oddsson frá Viðskiptaráði Íslands, Hrafn Magnússon og Arnar Sigurmundsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ, Helgu Jónsdóttur og Sonju Ýr Þorbergsdóttur frá BSRB, Guðmund Bjarnason og Ívar Ragnarsson frá Íbúðalánasjóði, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins og Ernu Guðmundsdóttur frá BHM og Kennarasambandi Íslands.

Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að við sérstakar aðstæður verði fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að leggja fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða hluta. Í öðru lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að ríkissjóður geti við vissar aðstæður lagt sparisjóðum til fjárframlag sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé. Sama gildi um sparisjóði sem búið er að hlutafjárvæða.

Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði fengnar víðtækar heimildir til að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja og bregðast við vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði, að boða til hluthafafundar eða fundar stjórnar auk þess sem gerðar eru breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi. Loks er lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilað að yfirtaka húsnæðislán fjármálafyrirtækja.

Eftir umræður nefndarinnar hefur meiri hlutinn komið sér saman um eftirfarandi breytingar við frumvarp þetta. Lagt er til að 1. mgr. verði breytt á þann hátt að skýrlega sé tekið fram að ekki verði gripið til ráðstafana samkvæmt lögunum nema við sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði. Þá er einnig lagt til að tenging milli 1. og 2. mgr. 1. gr. verði skýrari með því að vísa í 2. mgr. til hugtaksins sérstakra og óvenjulegra aðstæðna á fjármálamarkaði sem fram kemur í 1. mgr.

Nefndin ræddi um viðskipti með stofnfjárbréf í 2. gr. frumvarpsins og leggur til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að setja sérstakar reglur um viðskipti með stofnbréf.

Einnig er bætt við nýrri málsgrein í 5. gr. þannig að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að skipa fimm manna skilanefnd sem fari með allar heimildir stjórnar fjármálafyrirtækis sem vikið hefur verið frá.

Þá eru lagðar til breytingar sem tryggja að allur lífeyrissparnaður á innstæðuformi falli undir ákvæði laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999.

Einnig leggur meiri hlutinn til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að kaupa eða endurfjármagna skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði og að ráðherra verði heimilt að mæla nánar fyrir um slíka yfirfærslu lána í reglugerð. Nefndin ræddi einnig nokkuð um lagaheimildir Íbúðalánasjóðs til skuldbreytinga á lánum og telur nauðsynlegt að kveðið verði skýrt á um að yfirtekin eða keypt lán skv. V. kafla frumvarpsins falli undir heimild til skuldbreytingar sem kveðið er á um í 48. gr. laga um húsnæðismál. Með þessu telur nefndin tryggt að heimilt verði að skuldbreyta keyptum eða yfirteknum lánum einstaklinga sem lenda í greiðsluerfiðleikum.

Að lokum ræddi nefndin um nauðsyn þess að lög þessi verði endurskoðuð og leggur til í ákvæði til bráðabirgða að þau skuli endurskoðuð fyrir 1. janúar 2010.

Nefndin leggur áherslu á að ákvæði frumvarpsins eru hugsuð sem neyðarráðstöfun og því þurfi ráðherra að leita staðfestingar þingsins. Leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að verði heimildin notuð skuli fjárlaganefnd Alþingis upplýst jafnharðan um ráðstafanir.

Nefndin telur að í ljósi þessara sérstöku aðstæðna sem skapast hafa á innlendum sem og alþjóðlegum mörkuðum sé heimilt að grípa til svo róttækra aðgerða sem hér eru lagðar til og koma með því í veg fyrir keðjuverkandi áhrif á fjármálamarkaðinn og íslenskt hagkerfi. Leggur nefndin áherslu á að hér er umfram allt verið að tryggja hagsmuni hins almenna borgara og skapa skilyrði fyrir stöðugleika í efnahagslífinu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem koma fram á sérstöku þingskjali.

Undir þetta álit skrifa Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Jón Gunnarsson, Björk Guðjónsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Birkir J. Jónsson, með fyrirvara, Höskuldur Þórhallsson, með fyrirvara.

Ég tek fram að við fengum umsagnir frá bæði efnahags- og skattanefnd og félags- og tryggingamálanefnd.

Að lokum vil ég segja það að hér átti sig allir á því í samfélaginu, bæði innan þings og utan, að um neyðarráðstöfun er að ræða. Hér er á ferðinni setning neyðarlaga til að mæta þeim efnahagslegu hamförum sem nú ríða yfir þjóðina, en það má líka hafa í huga að þetta er hluti af þeim alþjóðlega vanda sem nánast öll vestræn ríki búa núna við. Með þessari lagasetningu erum við að tryggja hag almennings, við erum að tryggja að bankastarfsemi í landinu haldi áfram og greiðslukerfin verði virk, við erum að tryggja að allar innstæður borgaranna verði öruggar, við erum að tryggja að ríkið fái heimild til að grípa inn í við stjórnun fjármálafyrirtækja ef stefnir í óefni. Ef fjármálafyrirtæki lenda í vandræðum er þessi heimild fyrir Fjármálaeftirlitið til að koma að stjórn þess fyrirtækis og það tryggir í mínum huga að ekki muni reyna á það að innstæður einstaklinga séu í hættu.

Við tryggjum þarna heimild til innspýtingar í sparisjóðina, við erum að tryggja að innstæður verði forgangskröfur, við erum að tryggja að Íbúðalánasjóður geti yfirtekið húsnæðislánin, sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt í þessu samhengi.

Við höfum sömuleiðis samhliða þessu boðað að sett verði á fót, eins og hér hefur komið fram, samræmd þjónustumiðstöð félagsmálaráðuneytisins til að mæta þeim spurningum sem óneitanlega vakna við það umrót sem nú er í gangi.

Tilgangurinn er að sjálfsögðu sá að tryggja gangverk atvinnulífsins, við erum að tryggja og stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Við höfum orðið fyrir talsverðu höggi, það fer ekki fram hjá nokkrum manni en við megum ekki gleyma því að innviðirnir eru traustir. Við höfum mjög öflugan mannauð, við erum þrátt fyrir allt fimmta ríkasta þjóð í heimi, við erum með eitt öflugasta lífeyrissjóðskerfi í heimi, við erum með öflugt menntakerfi og velferðarkerfi, við erum með endurnýjanlegar auðlindir og þetta þarf allt að setja í samhengi við þau tímabundnu vandræði sem núna ríða yfir okkur. Ég fullyrði að Íslendingar og við öll sem dveljum á þessu landi munum komast út úr þessum vandræðum, við munum halda áfram að vinna að tillögum og hugmyndum um að tryggja hér enn frekari fjárhagslegan stöðugleika þar sem sanngirni og réttlæti verða okkar leiðarljós.