136. löggjafarþing — 6. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[22:15]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég get vissulega tekið undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, að það er nauðsynlegt að þjóðin sýni samstöðu við þær aðstæður sem nú eru. Það er hins vegar þannig, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um í ræðu sinni áðan, að stjórnarandstaðan var reiðubúin til þess að vinna með ríkisstjórninni að öllum góðum hlutum til lausnar þess vanda sem við er að etja og bauð það ítrekað fram við stefnuræðu forsætisráðherra. Það hefur legið fyrir að stjórnarandstaðan hefur virkilega viljað leggja gjörva hönd á plóg til þess að leiða þjóðina farsællega út úr þeim vanda sem m.a. ríkisstjórnin hefur komið henni í. Ég tel að stjórnarandstaðan hafi ekki fengið eðlileg svör frá ríkisstjórninni né hafi verið reynt að koma á samráði eða samstarfi við stjórnarandstöðuna við þá vinnslu sem hér er um að ræða. Forsenda þess að þjóðarsátt geti verið er að ríkisstjórnin hafi forgöngu um að skapa þau skilyrði og taka við þeim möguleikum sem að ríkisstjórninni eru réttir.

Hér er lagt fram frumvarp sem felur í sér mjög víðtæka þjóðnýtingarheimild. Að sjálfsögðu geldur maður mikils varhuga við slíku og þrátt fyrir skamman tíma hefur þó tekist að koma örlítið betri atriðum að varðandi frumvarpið. Nauðsynlegt hefði verið að stjórnarandstaðan hefði verið kölluð til fyrr því þá hefði frumvarpið fengið eðlilegri og betri þinglega meðferð.

Ég vakti sérstaka athygli á, t.d. varðandi 1. gr. frumvarpsins, að þar er um að ræða mjög takmarkalitlar heimildir og fáar orðskýringar á því hvaða aðstæður þurfi að vera fyrir hendi svo að þeim þjóðnýtingarheimildum verði beitt sem frumvarpið kveður á um. Þess vegna var gripið til þess að gera þá breytingartillögu sem liggur fyrir frá meiri hluta viðskiptanefndar og lagt er til að bætt yrði við: „sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður“. Er þá verið að hnykkja á því að það er ekki miðað við að þetta komi til nema óvenjulegar aðstæður séu í íslensku samfélagi sem í raun geti réttlætt að gripið sé til þeirra aðgerða sem frumvarpið kveður á um. Þetta á ekki að vera almenn heimild til afskipta ríkisvaldsins heldur eingöngu við sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður. Ég vil leggja áherslu á að það skiptir máli að heimildinni sé ekki beitt nema við slík tilefni.

Þá vantar í frumvarpið, að mínu viti, ákvæði um það hvað heimildin á að ganga langt, þ.e. hvaða fjármunum má verja til þessara atriða. Það vannst ekki tími til þess að fara sérstaklega ofan í það en æskilegt hefði verið að reyna að gera ákveðna bragarbót á þeim atriðum.

Þriðja stóra atriðið sem var verulegur ágalli á frumvarpinu var að ekkert sólarlagsákvæði er á þessum víðtæku þjóðnýtingarheimildum, þ.e. varðandi endurskoðun og/eða það sem hefði verið enn þá betra, að lögin féllu úr gildi innan ákveðins tíma ef Alþingi gæfi þeim ekki frekara líf. Ég tel að það hefði verið hin eðlilega leið í þessu sambandi að lög sem eru sett við sérstakar óvenjulegar aðstæður og heimila sérstök óvenjuleg atriði, falli hreinlega niður innan ákveðins tíma nema að Alþingi telji að aðstæður réttlæti að þau standi áfram.

Þessi atriði hefði verið hægt að lagfæra ef tími hefði unnist til. Þar af leiðandi, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um í ræðu sinni, teljum við í Frjálslynda flokknum að okkur skorti nauðsynlegar upplýsingar og faglegar forsendur til að styðja það frumvarp sem hér um ræðir. Við höfum hins vegar ekki viljað bregða fæti fyrir það og höfum stuðlað að því að frumvarpið fái eðlilega og hraða þinglega meðferð. Við munum með sama hætti og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti sitja hjá við afgreiðslu efnisatriða frumvarpsins nema þau ákvæði sem varða sérstaklega Íbúðalánasjóð.

Ég vil geta þess að við frjálslynd höfum varað við því hvert stefndi í íslenskum þjóðarbúskap, sérstaklega fyrir síðustu kosningar. Þá vöktum við athygli á því og gerðum kröfu um að breytt yrði um peningamálastefnu. Við gerðum sérstakar athugasemdir við og vöktum athygli á því að það gengi ekki að gjaldmiðillinn í minnsta myntkerfi heims væri á floti, færi eftir veðri og vindum markaðsaðstæðna hverju sinni. Það skapaði of mikla óvissu og ekki nokkur stöðugleiki yrði í þjóðfélaginu ef þannig ætti að halda áfram. Öll þau varnaðarorð sem þar voru mælt hafa komið fram. Við berum ekki ábyrgð á því ástandi sem hefur skapast. Hefði verið farið að okkar tillögum hefði þetta ástand ekki komið upp. Peningamálastjórnin var óábyrg þar sem menn töldu sig vera í ofurþjóðfélagi sem gæti ráðið fram úr því að hafa flotgengi í minnsta myntkerfi heims.

Við höfum gert kröfu til þess að almenningur í landinu búi við svipuð eða sambærileg lánakjör og fólk annars staðar í okkar heimshluta. Seðlabanki Íslands sagði það ekki koma til greina og lýsti yfir í lok síðasta árs að það mundi skapa ofurþenslu í þjóðfélaginu. Nú þegar við afgreiðum þessi lög til aðstoðar og hjálpar fjármálamarkaðnum er spurningin þessi: Hvað á að verða um hinn venjulega Íslending, almenning í landinu? Á að líða það að venjulegt fólk þurfi áfram að búa við okurvexti, verðtryggingu á lánum og langtum verri lánakjör en gengur og gerist í okkar heimshluta? Ég segi nei. Það þarf að taka á málinu heildstætt, þetta er aðeins byrjunin. Það verður að hugsa um hagsmuni fjölskyldnanna í landinu og hugsa til þess að friður er rofinn í hverju því þjóðfélagi þar sem venjulegt fólk getur ekki lengur staðið undir skuldbindingum sínum. Þannig hefur það verið og ekki þarf að fara í flóknar söguskýringar eða ábendingar hvað það varðar. Þess vegna skiptir máli og ég lít svo á að hér séum við að afgreiða ákveðinn hluta en margt þurfi að koma til viðbótar.

Við gerðum kröfu til þess að vaxtaokrið yrði afnumið. Við kröfðumst þess að stýrivextir yrðu settir og hófstilltir og í staðinn fyrir að halda uppi hágengisstefnu á fölskum forsendum til tjóns fyrir framleiðsluatvinnuvegina yrði reynt að taka í taumana þannig að með eðlilegum hætti yrði komið í veg fyrir að við flyttum inn óendanlegan fjölda milljarða í jöklabréfum eða með öðrum hætti en flyttum síðan út vexti af þeim greiðslum. Það var ekki orðið við því og afleiðingar þeirrar óábyrgu peninga- og lánastefnu sem hefur verið fylgt eru nú að koma í ljós.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék að því ákvæði sem kveður á um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti í fyrirtækjum og ég tek undir þau sjónarmið sem hann setti fram. Að sjálfsögðu verðum við að gæta allra almennra reglna vinnumálaréttarins um að starfsfólk í fyrirtækjum njóti þeirra réttinda sem það hefur áunnið sér en fyrir löngu hefði átt að vera búið að taka á ofurlaunaaðlinum hjá fjármálastofnunum. Það hefði átt að vera búið að setja ákveðnar reglur fyrir löngu. Ég hef gert kröfu um að settar væru fram ákveðnar reglur, að beitt yrði m.a. sérstakri skattheimtu á þá sem eru með ofurlaun, sérstökum háskatti. Við því hefur ekki verið orðið og á síðastliðnum tíu árum hefur því miður orðið sú gjörbreyting í samfélaginu að við hurfum frá því kerfi, þeim viðmiðunum sem almennt hafa gilt á Norðurlöndum, þ.e. mannúðlegri markaðshyggju þar sem ekki væri um að ræða verulegan mismun á kjörum fólks. Einskis var gætt og kaupleigufurstunum og pappírsbarónunum var leyft að fara sínu fram eftirlitslítið. Þeir sem þannig stóðu að málum verða að bera ábyrgð á því með hvaða hætti þetta var gert. Við frjálslynd berum þar enga ábyrgð. Við höfum varað við þessu allan tímann, að það væri óvarlegt að víkja frá þeim grunni sem hefur verið markaður af markaðshyggjufólki á Norðurlöndum og hefur grundvallast á því að gæta hags okkar minnsta bróður. Markaðshyggjan mætti aldrei fara út yfir þau eðlilegu mörk sem við setjum um að ákveðið jafnrétti og jöfnuður sé í samfélaginu. Því miður hefur raunin ekki orðið sú á síðustu árum.

Í framhaldi af því að þetta frumvarp verður samþykkt opnast væntanlega fyrir möguleika á lánveitingum úr bankakerfinu. Þá er spurningin þessi: Hvað gerum við svo? Því hér er einungis verið að afgreiða frumvarp sem heimilar ákveðnar aðgerðir miðað við sérstakar, óvenjulegar aðstæður. Við þurfum að huga að því hvernig einstaklingar standa í samfélaginu og við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur, bæði Alþingi og ríkisstjórn verða að reyna eftir mætti að komast hjá atvinnuleysi í samfélaginu. Við þurfum að tryggja hagsmuni venjulegs fólks ekki síður en fjármálafyrirtækjanna, frekar ef eitthvað er.

Hvað gerum við svo? Hvert höldum við svo? Hvernig tryggjum við atvinnustig og velmegun í landinu? Í fyrsta lagi þarf að endurskoða vaxtastefnu Seðlabanka Íslands og það ætti að gerast á morgun. Það gengur ekki að ofurvaxtastefnan lami allt atvinnulíf í landinu eins og hún hefur gert undanfarna mánuði. Við vöruðum sérstaklega við því í vor en ekki var hlustað á það. Ljóst er að það verða að koma til ný atvinnutækifæri. Það þarf að virkja og setja í gang þær áætlanir sem uppi eru um ný álver.

Við þurfum að auka fiskveiðiheimildir, þorskveiðiheimildir, og þá skiptir máli að við gerum það með þeim hætti að almenningur geti notið þess sem best; að við setjum viðbótaraflaheimildir á markað fyrir fólkið í landinu og byggjum upp auðlindasjóð sem það getur nýtt til framtíðar. Við megum ekki láta kvótagreifana fá arðinn heldur fólkið í landinu vegna þess að við stöndum frammi fyrir sérstökum, óvenjulegum aðstæðum. Þá tökum við til ráða sem eru sérstök en þjóna tilgangi sínum miðað við þjóðfélagsgerðina eins og hún er núna.

Það verður að breyta peningamálastefnunni og það er nauðsynlegt að við fáum mynt í þessu landi — hvort sem hún heitir króna eða eitthvað annað — sem hefur þann styrkleika að geta verið gild í viðskiptum hvort heldur er til lengri eða skemmri tíma. Ef skapa á stöðugleika í landinu þá verður það að koma til. Það verður að huga að því að framleiðsluatvinnuvegirnir geti notið þess að skapa velmegun í landinu til frambúðar.

Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á koma þessi atriði til umræðu á næstu dögum. Við erum nú að greiða fyrir því að það frumvarp til laga sem hér liggur fyrir til umræðu geti fengið þinglega meðferð á sem skemmstum tíma, þó að við höfum ýmsar athugasemdir fram að færa við það eins og ég hef gert grein fyrir.