136. löggjafarþing — 6. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[22:30]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Herra forseti. Miklar hamfarir og hremmingar einkenna um þessar mundir fjármálakerfi, bæði hér heima og út um allan heim. Frumvarpið sem nú er til umræðu felur í sér heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, breytingar á lögum um innstæðutryggingar og breytingar á lögum um húsnæðismál. Um er að ræða mjög víðtækar heimildir til að grípa inn í aðsteðjandi vanda. Ég vil nefna þrjár heimildir þar.

1. Heimild til fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki í heild eða að hluta.

2. Heimild til Fjármálaeftirlitsins til að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja í því skyni að takmarka tjón á fjármálamarkaði.

3. Heimild Íbúðalánasjóðs til að yfirtaka húsnæðislán banka og fjármálastofnana.

Það vill svo til, herra forseti, að ég er þingmaður á Evrópuráðsþinginu. Í síðustu viku þingaði það þing og á meðal ræðumanna þar var yfirmaður OECD, Angel Gurria. Hann lýsti aðstæðum á fjármálamörkuðum heimsins þannig: „Fjármálamörkuðum má líkja við flæðilínu, flæðilínu sem er í kyrrstöðu.“

Herra forseti. Við verðum að átta okkur á því að vandamálið er ekki bundið við Ísland. Í því felst auðvitað vandi líka en við verðum að gera okkur grein fyrir þessu. Þetta er ekki bara íslenskt vandamál heldur hafa þing og ríkisstjórnir víða um heim gripið til aðgerða eða eru í þann veginn að grípa til aðgerða sem eru kannski ekki úr takti við það sem við ræðum hér. Við verðum að átta okkur á því að í Bandaríkjunum og í Danmörku eru sjóðir nú þegar samþykktir til að grípa inn í þessi mál. Svo að ég taki dæmi: Í Bretlandi og í Svíþjóð er verið að vinna að lagapakka til að taka á þessum málum og við gætum lengi talið vegna þess að þetta er vissulega alþjóðlegt vandamál.

Talandi um stöðuna hér heima þá erum við að tala um að endurskipuleggja fjármálakerfið okkar þannig að staðan hér bitni sem minnst á íslenskum einstaklingum, fjölskyldum, fyrirtækjum og framtíðarkynslóðum. Að staðan heima og staðan út um allan heim bitni sem minnst á fólkinu okkar, á fyrirtækjunum okkar. Við viljum lágmarka skaðann og byggja upp sterkt fjármálakerfi. Þetta skulum við öll athuga.

Í öðru lagi fær Íbúðalánasjóður þessa heimild til að yfirtaka húsnæðislán banka og fjármálastofnana. Það mun koma mörgum fjölskyldum til góða.

Í þriðja lagi hefur forsætisráðherra margnefnt það sem við skulum líka öll muna eftir og það er að inneignir einstaklinga og fyrirtækja í landinu í íslenskum bönkum og fjármálafyrirtækjum eru tryggðar. Þetta eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar og við væntum þess að það megi vita á gott fyrir alla landsmenn því að við verðum að tryggja stöðugleika í landinu eins og hægt er á þessum viðsjárverðu tímum. Við verðum að tryggja fjármögnun fyrirtækjanna, að við getum haft vinnu fyrir alla landsmenn, farið í vinnu, fengið okkar laun, að fyrirtækin geti greitt fyrir skuldbindingar sínar, að við getum öll í sameiningu notið þess að hafa lifandi og öflug fyrirtæki eins og hingað til. Við þurfum líka að tryggja að fólkið í landinu geti staðið við skuldbindingar sínar og fjölskyldur og einstaklingar geti haldið áfram lífi sínu á þessu góða landi. Ég veit að fram undan eru erfiðir tímar fyrir okkur öll.

Frumvarpið er erfitt fyrir okkur öll, þ.e. að fara í gegnum það á þessum hraða en skynja það samt í leiðinni að við verðum að gera þetta. Ég styð frumvarpið og ég vonast til að það verði okkur öllum til góðs vegna þess að við þurfum að efla samfélag okkar til framtíðar og við þurfum á því að halda að við sýnum öll samstöðu, að við séum öll samtaka. Við erum öll á sama báti og vonum að þetta viti á gott fyrir samfélag okkar.