136. löggjafarþing — 6. fundur,  6. okt. 2008.

heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.

80. mál
[22:36]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mörg þung skref hafa verið stigin í dag. Það er sárt að til þess þurfi að koma að svona neyðarlög líti dagsins ljós en það er því miður sú staða sem komin er upp í íslensku efnahagslífi. Um er að ræða viðamikið inngrip, eitthvert það mesta í sögu lýðveldisins, og við í stjórnarandstöðunni hefðum kosið að við þær aðstæður hefði verið talað við okkur á fyrri stigum málsins. Það er vægast sagt ógjörningur að fara yfir svona viðamikið og stórt mál á þeim fáu klukkutímum sem okkur hefur verið úthlutað hér í dag.

Það eru aftur á móti skýr markmið með framlagningu frumvarpsins og það er fyrst og fremst að halda atvinnulífinu gangandi og að gæta að hagsmunum almennings. Það þarf ekki að fara fleiri orðum um það. Í framhaldinu tel ég að fara þurfi vel yfir málin. Ekki á að leita að sökudólgum heldur kanna gaumgæfilega hvað fór úrskeiðis þannig að við getum lært af þeim mistökum sem íslensk stjórnvöld hafa gert hingað til.

Við framsóknarmenn ætlum að greiða fyrir framgangi þessa máls en við styðjum það þó með fyrirvara. Hér er einfaldlega verið að veita svo víðtækar heimildir til fjármálaráðherra og ekki síst Fjármálaeftirlitsins að mikill vafi leikur á því að það standist stjórnarskrárákvæði. Ég ætla í stuttu máli að fara yfir þær vangaveltur sem við framsóknarmenn höfum farið í gegnum um frumvarpið.

Í 1. mgr. 1. gr. kemur fram að við sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild sinni. Við fögnum því að þarna séu komin inn orðin „við óvenjulegar aðstæður“ sem takmarka þessa heimild að einhverju leyti en hefðum viljað kanna það sérstaklega hvort ekki hefðu átt að vera einhvers konar skorður á því fjármagni sem fjármálaráðherra verður þá heimilt að reiða úr ríkissjóði. Við hefðum líka kosið að það hefði verið skoðað betur hvort ekki hefðu átt að koma inn í lögin einhver viss mörk hvað varðar þann tíma sem þær ákvarðanir hefðu þurft að koma fyrir þingið. Það er nefnt sérstaklega í nefndaráliti meiri hlutans sem við framsóknarmenn setjum fyrirvara við — þar er mælst til þess að þetta komi sem allra fyrst inn til þingsins og vitnað í fjárreiðulög en það er spurning hvort ganga hefði átt skrefinu lengra og setja þetta beint inn í það frumvarp sem hér er til umræðu. Þá tökum við undir þau orð stjórnarandstöðunnar að réttindi almennra starfsmanna verði varin en hér eru ákvæði í 3. mgr., þar er fjallað um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti á fyrirtækjum, um að þau gildi ekki um yfirtöku fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta samkvæmt lögum þessum. Við förum fram á að farið verði afskaplega varlega með þessa heimild. Umræðan um ofurlaunin er svo eitthvað sem þarf að taka upp mjög fljótlega á Alþingi.

Sú grein sem við framsóknarmenn setjum kannski mestan varann við er 5. gr. frumvarpsins þar sem í rauninni má segja að Fjármálaeftirlitinu sé veitt meira vald en stofnun hefur nokkurn tíma verið veitt í sögu lýðveldisins. Ekki er þar um að ræða lýðræðislega kjörna fulltrúa þannig að ég held að hér sé mál að staldra við. Í greininni kemur fram að Fjármálaeftirlitið geti tekið yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda. Það kemur einnig fram að Fjármálaeftirlitið geti tekið yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild sinni eða að hluta eða ráðstafað slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, m.a. með samruna við annað fyrirtæki. Þá kemur fram að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að framselja öll réttindi að því marki sem nauðsynlegt sé í slíkum tilvikum. Þetta eru viðamiklar og stórar heimildir. Þarna er í rauninni verið að ræða um inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi. Verið er að taka völdin af kjörnum stjórnum hlutafélaga og ég tel einfaldlega að þetta sé á afar gráu svæði og að um mjög varhugaverða heimild sé að ræða.

Við þurfum að staldra við þegar við setjum ákvæði í lög sem ganga gegn stjórnarskrárvörðum réttindum og við verðum að hafa það hugfast að Alþingi getur ekki breytt stjórnarskránni eða stjórnarskrárvörðum réttindum nema með því að rjúfa þing og boða til kosninga. Er ég þar sérstaklega að ræða um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og 65. gr. þar sem er hin svokallaða jafnræðisregla en það er afarmikilvægt að við framkvæmd þessara laga sé bönkum, sparisjóðum og fjármálafyrirtækjum almennt ekki mismunað. Við framsóknarmenn munum því sitja hjá við afgreiðslu þessa ákvæðis. Við fengum ekki að vera með við samningu frumvarpsins þrátt fyrir ítrekaðar óskir og framrétta sáttarhönd. Á vissan hátt má segja að sú ósk hafi verið hunsuð og við munum því miður ekki getað verið með þessu ákvæði þó að við greiðum fyrir framgangi þessara laga.

Virðulegi forseti. Með lögum þessum er miðað að því að tryggja grunnstöður íslensks efnahagslífs, að tryggja að innstæður og lífeyrissjóðir landsmanna verði áfram tryggðir. Við framsóknarmenn vonum að með þessum lögum verði framtíð íslensks efnahagslífs tryggð. Við treystum því að áfram verði unnið að málum á þann veg að atvinnuuppbygging haldi áfram og hjól atvinnulífsins stöðvist ekki. Um er að ræða stórar og erfiðar ákvarðanir en við framsóknarmenn skorumst ekki undan ábyrgð í þeim efnum.