136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

stóriðjuframkvæmdir.

[13:36]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í ljósi þungra skrefa sem stigin voru í gær og við fáum fréttir af nú í morgun í ljósi óvenjulegar og sérstakra ástæðna á fjármálamarkaði finnst mér vert að ræða framhaldið. Markmiðin voru skýr með frumvarpinu sem var lagt fram á Alþingi. Það þarf fyrst og fremst að halda atvinnulífinu gangandi og halda áfram að vinna að því að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki.

Í lok þeirrar umræðu sem fór hér fram í gær svaraði hæstv. forsætisráðherra spurningum hv. þm. Guðna Ágústssonar um eflingu atvinnulífsins með þessum orðum, með leyfi forseta:

„... og tek eindregið undir það sem hann sagði við bæði 1. og 2. umr. um að við eigum að nýta auðlindirnar okkar og það hef ég margsagt bæði hér í Alþingi og annars staðar. Oft var þörf en nú er nauðsyn við þessar aðstæður.“

Þetta eru stór orð, herra forseti. Á Íslandi eru tvær stórframkvæmdir í burðarliðnum, annars vegar á Bakka við Húsavík og hins vegar við Helguvík á Reykjanesi. Á Bakka skiptir nú öllu máli að leyfi til tilraunaborana fáist á Þeistareykjum því eins og alþjóð veit setti úrskurður hæstv. umhverfisráðherra framkvæmdina í mikið uppnám og ljóst að verkefnið tefst um að minnsta kosti eitt ár ef leyfi til tilraunaborana fæst ekki. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra í ljósi þeirra óvenjulegu og sérstöku aðstæðna sem nú eru í efnahagsmálum hvort hann og ríkisstjórnin muni ekki beita sér sérstaklega og leggja þunga á að þessar tvær stóriðjuframkvæmdir verði að veruleika.