136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

stóriðjuframkvæmdir.

[13:38]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum fyrir þessa fyrirspurn og jafnframt fyrir hans ágæta stuðning við það þingmál sem afgreitt var hér í gærkvöldi eins og við þekkjum. Tilvitnun hans í ræðu mína frá í gærkvöldi er ágæt, tel ég, (Gripið fram í.) en það sem þar kom fram er ekki nýtt af nálinni. Ég hef margsagt það bæði í þingsölum og á öðrum vettvangi að ég tel að við eigum að halda áfram uppbyggingu á grundvelli okkar náttúruauðlinda til þess meðal annars að ná þeim markmiðum sem við vorum að vinna að í gær með samþykkt lagafrumvarpsins sem hér var til umfjöllunar.

Það er spurt bæði um Helguvík og Bakka. Helguvíkurverkefnið er komið í fullan gang. Það er byrjað að reisa þá verksmiðju og ég hygg að öllum hindrunum sé rutt úr vegi fyrir því að það mál geti gengið eðlilega fram. Það kunna að vera einhver atriði óleyst en þau munu án efa leysast. Bakkaverkefnið er flóknara. Ég veit ekki annað en allir sem að því koma séu af heilum hug að reyna að leysa úr því máli. (Gripið fram í.) Það er verið að leysa það mál eftir því sem hægt er og eins og hratt og hægt er þannig að ég get fullvissað hv. þingmann um að mín afstaða í því efni er óbreytt. Ég styð þetta verkefni. Sjálfstæðisflokkurinn gerir það og ég efast ekkert um eindreginn vilja Samfylkingarinnar til að koma því máli í heila höfn.

Varðandi hins vegar leyfi til tilraunaborana þá get ég ekki svarað fyrir það nákvæmlega hvar það er á vegi statt en það eru áreiðanlega allir að leggja sig fram um að ganga frá því máli með farsælum hætti.