136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

aukinn þorskkvóti.

[13:41]
Horfa

Samúel Örn Erlingsson (F):

Herra forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um afstöðu hans og ríkisstjórnarinnar til þess að auka þorskkvóta Íslendinga við núverandi aðstæður.

Atburðarás síðasta sólarhrings líður Íslendingum áreiðanlega seint úr minni og nú sverfur að hjá mörgum. Það er því mikilvægt að auka og styrkja verðmætasköpun í samfélaginu. Nokkur atriði í þessu efni hafa verið nefnd í umræðu síðustu daga. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, og raunar fleiri hafa meðal annars lagt eindregið til að gengið yrði beint til verks og þorskkvótinn aukinn verulega.

Það er ljóst að verðmætasköpun með aukningu þorskkvótans kæmist hvað fyrst í verk af þeim tillögum sem fram hafa verið settar í þessu efni. Vissulega greinir menn nokkuð á um hversu langt megi ganga. Sjálfsagt er að taka tillit til álits sérfræðinga en ég tel líka hollt að hlusta á sjónarmið sjómanna sem halda því fram að það sé nægur þorskur í sjónum.

Í fyrra var tekin djörf ákvörðun um niðurskurð þorskkvótans. Sú ákvörðun var tekin í góðæri. Nú hriktir í stoðum og þá verða menn að ganga svo langt sem skynsemin leyfir. Ég spyr því forsætisráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að þessi leið verði farin.