136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

aukinn þorskkvóti.

[13:44]
Horfa

Samúel Örn Erlingsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svör hans við fyrirspurn minni. Mér er fullljóst að það er í mörg horn að líta hjá honum og ríkisstjórninni og það er í mörg horn að líta í þessu tiltekna máli. En hér er fjallað um það sem mikilvægast er við þessar aðstæður, þ.e. að auka verðmætasköpun í samfélaginu sem er nauðsynlegt til að hamla gegn því sem riðið hefur yfir þjóðina.

Það er ekki síður mikilvægt við þessar aðstæður að auka tiltrú og bjartsýni. Fátt mundi styrkja grunnatvinnuvegi okkar hraðar og sterkar nú en einmitt það að auka veiðiheimildir sé þess nokkur kostur. Ég skora því á forsætisráðherra og ríkisstjórnina að skoða þessa leið mjög alvarlega í samráði við færustu menn.