136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

staða mála á fjármálamarkaði.

[13:48]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það kann að vera að tilefni sé til að senda Pútín skeyti, hann á nefnilega afmæli í dag. En ég vil svara spurningu þingmannsins þannig að auðvitað höfum við allar gáttir opnar og reynum að athuga allar mögulegar leiðir í þessum efnum til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann eins og við höfum náttúrlega verið að gera en því miður víða komið að luktum dyrum. Við ákváðum það því, og ég beitti mér fyrir því í sumar, að kannað væri hvort grundvöllur væri fyrir því að ræða við Rússana. Niðurstaðan er sú að þeir hafa áhuga á því að ræða um þetta við okkur þó auðvitað sé ekki búið að ganga frá neinu. Það þarf að semja um hlutina í kringum þetta. En það fara væntanlega menn frá okkur til að vinna það verk núna alveg á næstunni. Þetta er jákvætt en er eitt af þeim málum sem ekki var hægt að skýra frá fyrr en það var komið á þetta stig.

Við munum auðvitað halda áfram að þreifa fyrir okkur með annað og þetta er hugsað til þess að styrkja varasjóðinn okkar. Fjármagn af þessu tagi er ekki hugsað til að það komi til endurlána eitthvert annað. Við erum fyrst og fremst að þessu til þess að byggja upp viðbúnaðinn í landinu ef þetta heppnast í samstarfi við Rússland en ekki til að nota hér innan lands í lánastarfsemi, framkvæmdir eða neitt slíkt til að eyða í verkefni innan lands eða á vegum ríkissjóðs. Þetta er ekki hugsað þannig en þetta er gott mál og ég fagna því að hv. þingmaður tekur undir það með mér.