136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

húsnæðismál.

9. mál
[13:54]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þetta verður mjög stutt ræða því aldrei þessu vant ætla ég ekki að mæla með beinum hætti fyrir þessu frumvarpi heldur aðeins að útskýra stöðu þess eins og hún er nú orðin. Það var eitt af fyrstu þingmálum okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að breyta lögum um húsnæðismál á þann veg að Íbúðalánasjóður hefði fortakslausar heimildir til þess að endurfjármagna og taka í viðskipti lán þeirra sem hefðu fengið íbúðalán hjá bönkunum og sparisjóðum undanfarin ár, fyrst og fremst 3–4 ár eða svo, þannig að opnaður yrði almennur lánaflokkur hjá Íbúðalánasjóði sem gæfi kost á slíkri endurfjármögnun. Þetta er af ástæðum sem ég held að séu öllum kunnar að bankarnir ruddust inn á íbúðalánamarkaðinn með miklum látum á árunum 2005 og þar á eftir og buðu gyllikjör en þeir lánaskilmálar eru mjög margir þannig að í þeim eru endurskoðunarákvæði hvað varðar lánskjör eða vexti oftast eftir 5 ár. Þetta er að vísu dálítið breytilegt en stór hluti þessara lána er á slíkum kjörum. Um er að ræða að mestu leyti erlend lán og þessi lán voru eins og hver önnur neyslulán til almennings með þeirri einu undantekningu að þau voru veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði. Menn þurftu sem sagt ekki að hafa verið að kaupa íbúð eða byggja hús eða endurbæta húsnæði sitt til að fá slíkt lán. Svo fremi sem þeir áttu veðrými í íbúðarhúsnæði gátu þeir fengið þau hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum.

Nú er ljóst að vaxtakjör eru allt önnur í dag en boðin voru á þessum tíma og að óbreyttu mundi stefna í umtalsverða hækkun á vöxtum á endurskoðunardögum lánanna. Síðan þekkjum við auðvitað öll þau ósköp sem gengið hafa yfir fjármálaheiminn og bankastofnanirnar og er þar af leiðandi enn meiri ástæða en ella til að opna fyrir það að almenningur komist í öruggt skjól Íbúðalánasjóðs með þessi mikilvægu lán heimilanna sem eru húsnæðislánin auk þess sem kjörin eru þar betri en bjóðast nokkurs staðar annars staðar.

Frumvarp okkar gerir ráð fyrir því að sérstakur undirlánaflokkur verði búinn til undir liðnum Almenn lán en þau eru sem kunnugt er nú til að fjármagna kaup, byggingar eða endurbætur á íbúðarhúsnæði og þannig gerðum við ráð fyrir því að við bættist sem og lán til endurfjármögnunar lána frá viðskiptabönkum eða sparisjóðum með veði í íbúðarhúsnæði á viðeigandi stöðum í lögunum. En það fór aldrei svo að fyrir því frumvarpi yrði mælt því í frumvarpi sem kom frá hæstv. ríkisstjórn í gær, um neyðaraðgerðir vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, var að finna ákvæði um að Íbúðalánasjóði skyldi heimilt að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð væru með veði í íbúðarhúsnæði. Í viðskiptanefnd lagði ég til að því ákvæði yrði þá breytt þannig að um hvort tveggja gæti verið að ræða að Íbúðalánasjóður keypti skuldabréfin eins og þau stæðu með óbreyttum lánskjörum eða að Íbúðalánasjóður gæti endurfjármagnað slík lán. Um þetta var síðan flutt breytingartillaga sem var samþykkt og þannig hljóðar nú 2. tölul. 9. gr. laga um húsnæðismál, með leyfi forseta:

„Að kaupa eða endurfjármagna skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.“

Þar með er orðinn nánast sami efnislegi frágangur á þessu í gildandi lögum, sem eru frá því í nótt — ætli þau hafi ekki hrokkið út úr prentvélunum um miðnættið — og í því frumvarpi sem við höfum hér flutt og ekki ástæða til að halda því lengur til haga.

Ég ætla svo að leyfa mér að vona að lærdómur okkar af sviptingunum að undanförnu sé sá, allra sem hér sitjum á Alþingi, og verði menn nú stórir í sér og þori að skipta örlítið um skoðun ef það kostar það, að engum heilvita manni detti í hug að fara að hrófla við Íbúðalánasjóði á næstunni og um hann verði slegið alveg óvígri skjaldborg þannig að hann fái að vera í friði og sinna sínu mikilvæga hlutverki. Það hefur sennilega sjaldan ef nokkru sinni á síðustu áratugum verið mikilvægara en einmitt nú að við eigum slíkan öflugan félagslegan samtryggingarsjóð allra landsmanna sem sjái fyrir þeim gríðarlega mikilvægu þörfum sem húsnæðisöflunin er í samfélaginu. Þetta er eins og við öll vitum yfirleitt mikilvægasta einstaka fjárfesting venjulegra fjölskyldna á lífsleiðinni og skiptir sköpum um afkomu heimilanna að eins vel sé búið að því og nokkur kostur er. Ærin ástæða er til að ætla að Íbúðalánasjóður verði tækið okkar á næstu mánuðum til þess að reyna að aðstoða fólk sem er í greiðsluerfiðleikum eða ræður illa við þunga greiðslubyrði af lánum, t.d. því sem kæmi inn í sjóðinn á grundvelli þeirra lagaheimilda sem nú hafa verið stofnaðar og þá á að sjálfsögðu að gera það með því t.d. að Íbúðalánasjóður geti virkjað heimildir sínar vegna greiðsluerfiðleika til að færa afborganir aftur fyrir o.s.frv.

Auðvitað er staðan sú að nú söknum við vina í stað þar sem voru fleiri slíkir sjóðir sem á erfiðleikatímum reyndust oft ómetanlegir, ekki bara fyrir húsbyggjendur eins og nú er heldur fyrir atvinnulífið meðan það átti sína fjárfestingarlánasjóði. Ætli það sé ekki þannig að bændur landsins sakni vinar í stað þar sem er Lánasjóður landbúnaðarins, áður Stofnlánadeild landbúnaðarins. Hvað væru menn með á dagskrá í þeirri stofnun ef hún væri til í dag? Ég get lofað ykkur því, hv. þingmenn, að það væru aðgerðir til að reyna að lina þjáningar bænda sem unnvörpum ráða ekki við gríðarlega greiðslubyrði af lánum sérstaklega þeim sem tekin hafa verið á allra síðustu árum eftir að fjármögnun færðist yfir til bankakerfisins ofan í allar þær kostnaðarhækkanir sem þeir hafa orðið að taka á sig. Ég vil leyfa mér að segja það hér, þó það sé kannski svolítið hliðarspor, herra forseti, að mikla ábyrgð bera þeir sem eyðilögðu Stofnlánasjóð landbúnaðarins, mikla ábyrgð bera þeir sem eyðilögðu Stofnlánasjóð sjávarútvegsins, Fiskveiðasjóð, sem var vel rekin og sterk stofnun og veitti yfirleitt alltaf í árslok viðskiptavinum sínum umtalsverðar endurgreiðslur af vöxtum vegna þess að sjóðurinn stóð vel og gat látið viðskiptavini sína, sjávarútveginn í landinu, njóta góðs af. Sama mætti segja um Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð á sínum tíma o.s.frv. Hvar eru þessi mál stödd í dag eftir þessa stórkostlegu einkavæðingu á stofnlánasjóðum atvinnuveganna? Er það ekki þannig að við vorum að ræða neyðaraðgerðir og hér ruku ræðumenn í stólinn, t.d. þingmenn Framsóknarflokksins, til að leggja áherslu á það hversu mikilvægt væri að bankakerfinu væri haldið á löppunum til að veita fyrirgreiðslu til atvinnulífsins. Hvað er inni í þessu bankakerfi? Það eru fjárfestingarlánasjóðirnir sem voru stofninn að eigin fé nýju montútrásarbankanna sem við erum núna með í höndunum suma hverja. Sagan endurtekur sig þó að menn læri lítið af henni. Ég ætla að leyfa mér að leggja enn og aftur áherslu á það að vonandi dettur ekki nokkrum lifandi manni í hug að halda til streitu þeim fráleitu hugmyndum sem hér voru uppi um að slátra Íbúðalánasjóði, færa öll hans verkefni yfir til bankanna, gera hann að hlutafélagi eða hvað það nú var.

En með vísan til þess sem áður sagði og þar sem efni frumvarpsins hefur í aðalatriðum, með þeim breytingum sem gerðar voru á stjórnarfrumvarpi í gær, orðið að lögum, kalla ég frumvarpið aftur, herra forseti.