136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[14:19]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi. Ég tel að það sé mjög af því góða og að mikil þörf sé á því að taka til endurskoðunar skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga. Af hverju? Það er einfaldlega vegna þess að það hallar á sveitarfélögin og hefur gert á síðustu árum. Sveitarfélög hafa í auknum mæli tekið yfir rekstur, samanber grunnskólana, og er mikill vilji til að sveitarfélögin taki við fleiri verkefnum af ríkinu, bæði varðandi hjúkrun á fólki og ýmiss konar aðra þjónustu sem ríkið rekur í dag. Það er mjög af hinu góða.

Þegar farið er að tala um sveitarstjórnarmál þarf auðvitað að tala um sameiningu sveitarfélaga. Æskilegt er að sameiningar verði á sveitarfélögum, sérstaklega litlum sveitarfélögum með fátt fólk. Þær hugmyndir hafa verið uppi að neyða sveitarfélög til sameiningar. Því er ég ekki hrifinn af og ekki sammála. Sameining sveitarfélaga verður að koma af sjálfu sér og fólkið sjálft verður að fá að ákveða hvort það vill vera í litlu sveitarfélagi eða stærra. Fólk sem býr í litlum sveitarfélögum verður að sjá fram á það áður en af sameiningu verður að hagur sé að slíku fyrir það. Ég vara við því að neyða sveitarfélög til sameiningar með lagaboði frá Alþingi. Ég held að gera þurfi fólkinu í litlu sveitarfélögunum ljóst hvers vegna betra sé að búa í stærra sveitarfélagi.

Í litlum sveitarfélögum eru oft smákóngar sem standa í vegi fyrir því að sveitarfélög séu sameinuð en auðvitað ræður mestu hver skuldastaða sveitarfélaga er þegar verið er að tala um sameiningu sveitarfélaga. Á mörgum svæðum er samstarf sveitarfélaga mjög af hinu góða og í því tilfelli má nefna Suðurnes þar sem samstarf sveitarfélaga hefur verið mjög gott í gegnum tíðina þótt e.t.v. megi segja að í dag séu ákveðnir erfiðleikar í samstarfi sem ekki var áður. Það varðar ýmiss konar mál, m.a. línulagnir yfir svæði á Suðurnesjum og svo gera sumir bæjarstjórar í stórum sveitarfélögum sig breiða og stilla litlu sveitarfélögunum upp sem er ekki af því góða.

Varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er ég þeirrar skoðunar að auka þurfi fé í Jöfnunarsjóð og auka framlagið sem var 700 milljónir sem nú er búið að hækka upp í 1.400 milljónir, að ég held. Það getur auðvitað hjálpað í ákveðnum verkefnum og gerir það eflaust. Í þessu frumvarpi þarf númer eitt, tvö og þrjú að breyta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og auka þarf veg sveitarfélaganna á kostnað ríkisins enda sést það og menn hafa fram á síðustu daga verið að gorta af því að ríkissjóður sé nánast skuldlaus en sveitarfélögin eru flest mjög skuldsett. Þar af leiðandi liggur í augum uppi að hallað hefur á sveitarfélögin. Flest sveitarfélög fóru illa út úr því þegar grunnskólarnir voru settir til sveitarfélaga þrátt fyrir að menn hafi haldið því fram, m.a.s. hér í þingsal, að það hafi verið vel útilátin fjárveiting með þeirri breytingu sem þar varð á.

Almenningur í litlu sveitarfélögunum hefur æðioft minni þjónustu en í stóru sveitarfélögunum og þess vegna þarf að hafa einhverjar gulrætur til að gera það fýsilegra fyrir fólk að búa í stærra sveitarfélagi. Á Suðurnesjum voru t.d. sameinuð þrjú sveitarfélög, Keflavík, Njarðvík og Hafnir. Minnsta sveitarfélagið, Hafnir, með um 100 manns, hefur dregist aftur úr að mínu mati á mörgum sviðum eftir sameiningu. Til dæmis var tekinn löndunarkrani af bryggjunni þar og bryggjunni hefur ekki verið viðhaldið og fleira mætti nefna. Það hefur leitt til þess að fólk er ekki ánægt með að vera orðið hluti af stærri heild þegar minna fé er veitt til þjónustu á hverjum stað. Fleiri þáttum hefur ekki verið sinnt eins og skyldi, s.s. neysluvatni og tölvutengingum. Reyndar held ég að búið sé að laga vatnsrennsli til Hafnarbúa en til skamms tíma var nánast ódrekkandi vatn þar og hallað hefur á íbúa staðarins í ýmsum málum.

Á næstunni má reikna með því að fleiri verkefni muni færast til sveitarfélaga. Stærri sveitarfélögin vilja taka að sér fleiri verkefni sem ríkið hefur haft á höndum.

Þá er eitt sem kom fram áðan varðandi útsvarið. Ég vara við því að gefa það frjálst að hækka útsvarið, að leyfa sveitarfélögunum hverju fyrir sig að hækka útsvarið eða að ákveða það. Það er ákveðið hámark og kannski er hægt að hækka það eitthvað lítils háttar. En ég vara samt við því að leyfa sveitarfélögunum að ráða hversu hátt útsvar megi leggja á fólk vegna þess að fyrir nokkrum árum var lögum um hafnarsjóði breytt og hafnargjöld voru gefin frjáls. Það hefur leitt af sér að í flestum tilfellum hafa sveitarfélög tapað. Það er ákveðin samkeppni, útgerðir stilla jafnvel sveitarfélögunum upp, fara fram á ýmiss konar afslátt á hafnargjöldum og annað í þeim dúr þannig að tekjur hafna hafa minnkað hlutfallslega eftir að gefið var frelsi í þessum efnum. Ég vara við því að fara of langt í þá átt enda standa sveitarfélögin mjög misjafnlega. Sum sveitarfélög gætu verið með útsvar allt upp í 20% í neyðartilfellum. Það held ég að sé ekki af því góða.

Þess vegna legg ég til að skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga verði gerð með það í huga að bæta stöðu sveitarfélaganna og eins er hægt að bæta stöðu þeirra í gegnum jöfnunarsjóð. Það er þó helst fyrir þau sveitarfélög sem standa hvað veikast. Í dag fer það eftir fólksfjölda í sveitarfélögunum hvernig veitt er úr jöfnunarsjóði og þau sem eru yfir ákveðnum mörkum detta út úr greiðslureglugerðum hjá sjóðnum. Jöfnunarsjóði er auk þess oft og tíðum breytt. Ég held að langeðlilegast sé að gera breytingar milli ríkis og sveitarfélaga, tekjurnar verði auknar til sveitarfélaganna en ég vara við því að gefa frelsi varðandi útsvarið.

Ég styð þetta frumvarp og mér líst vel á hugmyndirnar og vona að frumvarpið fái brautargengi í þinginu.