136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[14:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú held ég að við hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir séum í sjálfu sér ekki ósammála í sveitarstjórnarmálum svona í öllum meginatriðum. (Gripið fram í.) Þó gætir aðeins blæbrigðamunar svo að ekki sé sterkara að orði kveðið í nokkrum atriðum.

Vegna orða hennar um það sem ég sagði um aukið svigrúm sveitarfélaga til þess að ákveða tekjustofna sína þar með talið útsvarið — hvar ég ætlaði að setja hámarkið — vil ég segja: Ég held reyndar að langflest sveitarfélög á landinu nýti hámarksútsvar eins og það er í dag og það séu fyrst og fremst örfá sveitarfélög hér á höfuðborgarsvæðinu, tiltölulega vel sett sveitarfélög, sem ekki gera það. Það kunna að vera einhver dæmi víðar en ég held að í langflestum tilvikum sé það nú þannig.

Ég var fyrst og fremst að segja að ég teldi að leiða ætti hugann að því hvort það væru leiðir eða ástæða til að auka sveigjanleika sveitarfélaganna í þessu efni. Ég setti ekki fram neinar ákveðnar hugmyndir eða tillögur heldur var fyrst og fremst að vekja máls á þessu. Ég hygg að það sé t.d. þannig í Danmörku að sveitarfélögin ákveði útsvarið sjálf, það sé ekkert hámark.

Skattlagningarvaldið er á hendi sveitarfélagsins en menn geta alveg rætt hvort þannig eigi að hafa það. Sveitarstjórnarstigið er kosið lýðræðislegri kosningu. Sveitarstjórnarmenn bera ábyrgð og standa skil á gerðum sínum gagnvart kjósendum rétt eins og þingið. Ástæða er til að ræða hvort menn vilja fara þessa leið. Ég er alls ekki að mæla fyrir því að menn geri það en ég tel að full ástæða sé til að blanda því inn í þessa umræðu og taka hana.

Það eru auðvitað fleiri mál — við erum ekki að ræða hér sérstaklega stærð sveitarfélaganna eða sameiningu þeirra. Það er hægt að taka alveg sérstaka umræðu um það og vonandi gefst tækifæri til þess. En ég vara samt við því að menn líti svo á að sameining sveitarfélaga (Forseti hringir.) ein og sér sé leið til þess að bæta fjárhagsstöðu þeirra eða styrkja tekjugrunninn því það gerir hún ekki.