136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[14:47]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri mér grein fyrir því að við erum ekki að tala hér um lágmarksstærð sveitarfélaga eða önnur atriði. Tveir hv. þingmenn, sem töluðu hér á undan mér, ræddu þetta hins vegar, bæði hv. þm. Grétar Mar Jónsson og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson. Það var þess vegna sem ég kom hér upp og tók til máls um þetta.

Ég skildi hv. þm. Árna Þór Sigurðsson á þann veg í hans síðasta andsvari, hann dró aðeins í land miðað við fyrri ræðu sína. Hann sagðist ekki vera að leggja þetta til heldur kasta þessu inn í umræðuna. Það er sjálfsagt mál. Mér finnst sjálfsagt að ræða almennt tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. En ég verð hins vegar að lýsa mig ósammála því að fara þessa svokölluðu norsku eða dönsku leið sem hv. þingmaður viðrar hér, að ekkert hámark sé á sveitarfélögunum. Ég held að af hálfu ríkisvaldsins verði að vera einhver rammi sem sveitarfélögin fari eftir og miklu nær sé að skoða tekjuskiptinguna og frekari tekjur sveitarfélaga með einhverjum öðrum hætti, m.a. með því sem ég nefndi hér áðan, og ég er að sjálfsögðu tilbúin til að skoða það.