136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[14:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að vel megi skoða frekar aðrar leiðir en þær sem ég var að nefna. Ég var einungis að vekja máls á því að alls konar leiðir eru farnar í þessu efni í löndunum í kringum okkur. Það má vel fara yfir það og skoða hvaða leiðir koma þá til álita. Ég er sammála því að skynsamlegt sé að einhver rammi sé settur af hálfu löggjafans í þessu efni. Ég er fyrst og fremst að vekja máls á því að ekki er sjálfgefið að það sé á þann veg, það eru til aðrar leiðir.

Þingmaðurinn segist vera ósammála því að fara dönsku leiðina. Það er kannski ekki alltaf gott að taka Dani sér til fyrirmyndar. Ég get upplýst það hér að ég vil ekki fara dönsku leiðina varðandi sameiningu sveitarfélaga, þar sem ríkisvaldið tók ákvörðun um mjög umfangsmikla sameiningu sveitarfélaga með löggjöf sem var tekin til sérstakrar umfjöllunar á sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins í Strassborg. Danir fengu ákúrur fyrir það þar hvernig þeir fóru í það mál, algjörlega án samráðs við sveitarfélögin í landinu sjálfu og knúðu þá sameiningu í gegn með ofbeldi svo að ekki sé meira sagt. Ég er því ekkert sérstaklega að sækja í reynslubrunn Dana í þessu efni að minnsta kosti ekki að þessu leyti til.

En ég tel fulla ástæðu til að fara mjög rækilega yfir þessi mál öll og fordómalaust. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að ýmsar aðrar leiðir kunna að koma til álita, m.a. að því er varðar hlutdeild eða þátttöku ríkisins í einstökum verkefnum. Hún hefur nefnt almenningssamgöngur og ég tek heils hugar undir það og er því algjörlega sammála. Ég hef oft talað um það, flutti um það þingmál á síðasta þingi og er einnig með þingmál á þessu þingi sem lýtur að því efni.