136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[14:51]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrist við vera komin út í efnisumræðu um sameiningu sveitarfélaga og lágmarksíbúafjölda þeirra og það er svo sem allt í lagi. Ég vara hins vegar við því að menn nálgist umræðuefnið með þeim hætti sem hér er gert, að tala um að verið sé að neyða sveitarfélög í hlutina. Það er auðvitað alls ekki það sem um er að ræða. Það er verið að tala um að skoða þá möguleika að lögbinda lágmarkið og leita síðan leiða til að finna heppilegar stærðir af sveitarfélögum sem geta þá sameinast. Nú þekki ég ekki — ég hygg að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson þekki það betur en ég af störfum sínum fyrir sveitarfélögin úti í Brussel — þessa dönsku leið í þaula og hvort þeir hafa gengið þann veg sem við höfum gengið hér á Íslandi. Við höfum í áratugi verið með frjálsa sameiningu sveitarfélaga og bara gengið nokkuð vel.

Ég hygg að þessi athugasemd sem hv. þingmaður sagði að komið hefði frá Strassborg hafi komið vegna þess að farið var beint í þessa aðferð en ekki þessi langi aðdragandi eins og hefur verið hér á Íslandi þar sem menn hafa ráðið þessu sjálfir. Ég segi: Það er fullreynt með það, ágætu vinir og félagar hér í þessum sal. Það er hlutverk okkar að huga að því hvernig þjónustunni er best fyrir komið. Ég held því fram fullum fetum að sagan sýni það að þar sem sveitarfélög hafa sameinast úti á landi, lítil sveitarfélög hafa orðið að stórum einingum, hafi þjónustan batnað. Skólarnir hafi orðið betri, félagslega þjónustan hafi orðið betri, fólk sé ánægðara, sveitarfélagið sé fjárhagslegra burðugra en það var fyrir sameiningu. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera það sem skiptir máli.