136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[15:04]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um að Alþingi feli ríkisstjórninni að taka hið fyrsta upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um aukna hlutdeild sveitarfélaganna í innheimtum skatttekjum. Það er mál sem flestir sveitarstjórnarmenn, núverandi og fyrrverandi, þekkja. Það hefur verið rætt á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaganna um langa hríð. Því hefur verið velt upp með hvaða hætti sveitarfélögin gætu fengið sinn skerf af auknum tekjum og hvernig ætti að skipta því þannig að í sjálfu sér er hér ekkert nýtt á ferðinni.

Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa staðið og talað í dag að það er svolítið sérstakt að ræða þessi mál í ljósi þeirra aðstæðna sem hin íslenska þjóð er í nú. Það er sérkennilegt að ætla að ræða auknar tekjur þegar við stöndum frammi fyrir þeim vanda sem nú blasir við. Við getum hins vegar ekki skotið okkur undan þeirri ábyrgð að horfa til sveitarfélaganna, horfa til ríkisins og velta stöðu þessara tveggja stjórnsýslustiga fyrir okkur. Ríkið hefur kynnt fjárlög með 57 milljarða halla, sveitarfélögin gera sínar fjárhagsáætlanir. Væntanlega eru einhver sveitarfélög nú sem áður með fjárhagsáætlanir sem eru með halla. Í mínum huga, hvort heldur er um að ræða ríki eða sveitarfélög, er það óábyrgt og það er enn þá óábyrgara nú í því árferði sem er en nokkru sinni fyrr. Menn verða stundum, hvort sem þeim líkar það betur eða verr, ef þeir standa frammi fyrir vandamálum að taka sársaukafullar ákvarðanir og standa og falla með þeim. Við getum ekki eins og árar í dag lagt meiri byrðar á fjölskyldur í landinu, það er algjörlega kristaltært í mínum huga. Fólkið, þetta venjulega fólk, ég og hinir, á í erfiðleikum í dag og við þurfum að horfast í augu við það. Ríki og sveitarfélög geta að mínu mati ekki undir nokkrum kringumstæðum aukið á þann vanda sem við blasir.

Hins vegar þarf á þessu stigi, sem margoft hefur verið beðið um og verið rætt, samráðsvettvang ríkis og sveitarfélaga um aðgerðir og langtímamarkmið á sviði efnahags-, atvinnu- og félagsmála. Þessi tvö stjórnsýslustig verða að tala saman til þess að ná árangri á þeim sviðum. Um er að ræða tvö samverkandi stjórnsýslustig, annað er ekki æðra hinu því að hvort um sig þarf á hinu að halda.

Ríki og sveitarfélög verða líka að mínu mati að setja sér í sameiningu útgjaldamarkmið, það er einfaldlega þannig. Það er enn þá mikilvægara fyrir okkur þegar illa árar að gera það vegna þess að þá ríður á hvaða þjónustu við getum veitt og hvernig. Það er ekkert mál að spreða peningum í góðæri en það er erfitt að veita góða og örugga þjónustu þegar illa árar. Um það þurfa bæði ríki og sveitarfélög að hugsa, það er grundvallaratriði. Það getur ekkert fyrirtæki, hvorki ríkið né sveitarfélögin, rekið sjálft sig með halla, hvorki milljónahalla né milljarðahalla. Það hefur einfaldlega sýnt sig að ef skuldirnar eru orðnar meiri en eignir fer illa og ríki og sveitarfélög eru ekkert öðruvísi hvað það varðar.

Þess vegna held ég að brýnt sé að samráðsvettvangur milli ríkis og sveitarfélaga verði virkilega virkjaður og hann er nauðsynlegur að mínu mati nú þegar ríkið afgreiðir fjárlög sín og sveitarfélögin afgreiða fjárhagsáætlanir sínar. Við verðum að hafa kjark, hvort heldur er á Alþingi, í ríkisstjórn eða í sveitarfélögum, til að taka við þær aðstæður sem við búum við núna sársaukafullar ákvarðanir og standa við þær. Annað er hjóm, annað er ábyrgðarleysi. Samráð þessara tveggja stjórnsýslustiga er nauðsynlegt, frú forseti, að öðrum kosti getur illa farið.