136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[15:09]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um að Alþingi álykti sem svo að fela ríkisstjórninni að taka hið fyrsta upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um aukna hlutdeild sveitarfélaganna í innheimtum skatttekjum.

Komið hefur fram hjá mörgum hv. þingmönnum sem talað hafa á undan mér að það sé svolítið sérstakt að ræða þessa tillögu í því andrúmi sem við stöndum frammi fyrir núna, staða okkar er gjörbreytt. Á einum sólarhring hefur staðan gjörbreyst. Það er svo að fjárhagsáætlanir sveitarfélaga eru upp í loft. Það er alveg á hreinu að þau munu ekki hafa úr meiru að moða en þegar þær voru lagðar fram, þvert á móti, þær eru hrundar. Fjárlagafrumvarpið og forsendur þess eru orðnar allt aðrar. Við höfum á undanförnum árum fengið gríðarlega mikla skatta greidda inn í ríkissjóð og inn til sveitarfélaganna vegna þess að umsvifin í þjóðfélaginu hafa aukist mjög mikið. Það hefur skilað sér í miklum tekjum í veltusköttum, eins og til að mynda virðisaukaskatti og innflutningsgjöldum ýmiss konar, það mun algjörlega snarminnka.

Ég hef oft talað um að fjármagnstekjuskatturinn svokallaði mundi minnka talsvert. Hann mun ekki minnka talsvert, hann mun nánast hverfa. Við horfum því á algjörlega breytt landslag. Það sem e.t.v. hefur staðið upp úr þegar menn hafa talað um tekjuskiptingu milli sveitarfélaga og ríkis er að sveitarfélögin eigi rétt á því að fá hlutdeild í fjármagnstekjuskattinum. Mér hefur ekki þótt það út í bláinn, mér hefur þótt það óeðlilegt að einstakir aðilar geti notið þjónustu sveitarfélaga án þess að greiða til sveitarfélaganna. Margir hafa leikið á kerfið, minnkað skattbyrði sína með því að stofna til hlutafélaga og stofna til eigin rekstrar í kringum það sem þeir eru að brasa. Þar má nefna sem dæmi þá sem reka litlar útgerðir úti á landi og ná að einhverju leyti niður skattprósentunni sinni með þessu. Þeir sem höndla mikið með verðbréf, hlutabréf og slíkt, komast hjá slíkum greiðslum ef þeir hafa eingöngu tekjur í gegnum slík viðskipti.

Þess vegna hef ég sagt að ég væri tilbúinn til að endurskoða að á slíkar upphæðir kæmi reiknað endurgjald. Það þýðir í rauninni að með slíkri breytingu fær ríkissjóður auknar og eðlilegar tekjur í gegnum reiknaða endurgjaldið og sveitarfélögin einnig sem hlutfall af því. Það er þekkt hjá þeim sem eru í eigin rekstri að þeir þurfa að reikna sér slíkt endurgjald í mörgum tilvikum en það hefur ekki verið svo með þá sem eingöngu hafa fengið tekjur í gegnum hlutabréfa- og verðbréfaviðskipti.

Ég held að við þurfum ekki að hafa rosalegar áhyggjur af því að miklar tekjur komi af þessu, því miður. Það munu allir þurfa að herða sultarólina og draga saman svo um munar. Það þarf hins vegar að gera það með þeim hætti að það komi sem minnst niður á þeim sem síst skyldi, þ.e. fjölskyldunum í landinu.

Ég get tekið heils hugar undir það sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir kom inn á ásamt fleirum að æskilegt geti verið að skipta sveitarfélögum upp eftir tegundum eða eftir stærð þeirra í samræmi við hvaða verkefni eiga að vera á höndum einstakra sveitarfélaga. Þannig getum við flutt verkefni til stærri sveitarfélaga þó að við færum ekki slík verkefni yfir á hendur minni sveitarfélaga eða þá að við getum flutt verkefni yfir til minni sveitarfélaga með öðrum formerkjum en þegar þau eru flutt til stærri sveitarfélaga. Ef við skoðum reikninga sveitarfélaga í dag kemur í ljós að stóru sveitarfélögin verja á bilinu 50–60% af tekjum sínum til fræðslumála en í litlum sveitarfélögum getur það verið miklu hærra hlutfall, 80–90%, þrátt fyrir greiðslur úr jöfnunarsjóði. Það er því mikið og erfitt verkefni fyrir litlu sveitarfélögin að standa undir fræðslumálunum. Það hefur oftsinnis komið upp, m.a. hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en einhvern veginn hafa menn ekki verið tilbúnir til þess að stíga þetta skref en mér finnst það vel athugandi. Mér finnst í rauninni ekki hægt að segja að við getum ekki fært verkefni til sveitarfélaganna vegna þess að litlu sveitarfélögin geti ekki tekið við þeim. Þá verðum við einfaldlega að skilgreina verkefnin sérstaklega fyrir sveitarfélögin eftir stærð þeirra.

Ég get einnig tekið undir að sameining sveitarfélaga er hluti af heildarmyndinni og samgöngur eru að sjálfsögðu mjög mikilvægur þáttur í þeim hvata sem þarf að vera fyrir hendi til þess að sveitarfélög sameinist.

Því miður er það svo, frú forseti, að hið nýja landslag sem við stöndum nú frammi fyrir veldur því að ég átta mig engan veginn á því hvað bíður okkar varðandi tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga og því getur verið mjög erfitt að breyta skipulaginu áður en við sjáum hvaða afleiðingar gjörðir síðasta sólarhrings hafa í för með sér. Um leið undirstrika ég að mjög harðir tímar eru fram undan hjá stóru sveitarfélögunum en enn þá erfiðari hjá litlu sveitarfélögunum. Ég get því tekið undir að það þarf að skoða og horfa þá sérstaklega til þeirra.

Varðandi þá 1,4 milljarða sem sérstaklega var getið um í fjárlagafrumvarpi síðustu þriggja ára, ef ég man rétt, og ekki eru þar núna finnst mér rétt að það komi skýrt fram að það var alltaf hugsað þannig. Það er ekki verið að breyta í neinu frá því samkomulagi sem gert var. Samkomulagið snerist um að framlagið mundi ekki vera inni fyrir fjárlagaárið 2009 svo að það sé á hreinu að það hefur enginn gengið á bak orða sinna hvað þann lið varðar.