136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[15:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. samgönguráðherra hefur verið viðstaddur þessa umræðu og tekið þátt í henni. Það er rétt sem hann sagði að skapast hefur þverpólitísk samstaða í borgarstjórn Reykjavíkur um ákveðna aðgerðaáætlun og ég held að þau vinnubrögð sem þar voru viðhöfð séu til fyrirmyndar. Ég tek undir það. Ég held að það sé til eftirbreytni bæði fyrir önnur sveitarfélög en líka fyrir okkur hér á landsmálapólitískum vettvangi eins og reynt var að einhverju leyti í tengslum við þær miklu hremmingar sem við erum að ganga í gegnum þó að við hefðum að vísu sum hver kosið að það væri gert fyrr í því ferli öllu.

Ég held að þau vinnubrögð sem þar eru ástunduð séu líka til eftirbreytni fyrir okkur í þinginu í almennu lagasetningarferli og svona hinni pólitísku stefnumótun sem á sér stað því að það er jú þrátt fyrir allt þannig að það er Alþingi sem er löggjafinn sem setur lögin en ekki framkvæmdarvaldið, og oft og tíðum tel ég að það skorti meiri og breiðari pólitíska vinnu við undirbúning lagasetningar. Ég tek þetta hér upp í andsvari við hæstv. ráðherra vegna þess að ég spurði hann sérstaklega að því í ræðu minni hvernig hann hefði hugsað sér að standa að endurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaganna annars vegar og svo á sveitarstjórnarlögum sem hann hefur kynnt á fundum sínum, fundaherferð og fundum með landshlutasamtökunum að hann hafi áhuga á því að setja í gang, þar sem hann meðal annars fjallaði um þessa lágmarksíbúatölu.

Ég ætla ekkert að fara frekar út í það en get þó sagt að ég er sjálfur áhugamaður um fækkun og eflingu sveitarfélaganna í sjálfu sér þó að ég sé kannski ekki endilega sammála þeirri aðferð sem hæstv. ráðherra hefur kynnt. Ég tel þó að hún sé þess virði að ræða hana ásamt öðrum hugmyndum sem að gagni mega koma í því samhengi.