136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[15:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra varðandi endurskoðun tekjustofnalaganna sem hann gaf hér um pólitískt samráð um það og er sannfærður um að það verður til góðs.

Hvað varðar sveitarstjórnarlögin er það út af fyrir sig rétt að það þarf ekki mikla pólitíska yfirlegu ef meiningin er að koma bara með breytingartillögu um breytingu á þessari einu tölu sem er lágmarksíbúatalan. Þá væri kannski hægt að hafa þá aðferð að menn settu upp nokkrar tölur á blað og í einhvern pott og svo drægju menn bara úr potti hvaða tala kæmi þar upp.

Að sjálfsögðu er hægt að hafa margs konar skoðanir á því hver lágmarksíbúatalan á að vera. Hér var vitnað í formann Sambands íslenskra sveitarfélaga sem sagði að við gætum til dæmis á Vestfjörðum haft eitt sveitarfélag með okkar 7.700 íbúa. Það er í raun ekkert sem bannar að það sé gert þrátt fyrir að lágmarksíbúatalan sé eins og hún er í lögum í dag. Ef menn eru raunverulega að hugsa það þar af hverju fara þeir þá ekki bara í það? Það má spyrja sig að því. Þurfa menn að fá íbúatöluna úr 50 upp í 500 eða 100 til þess að stíga svo stórt skref? Það held ég ekki. Ég held að menn geti þá bara farið í það ef hugur er á bak við slíkar hugmyndir. Ég held að það sé ekkert vandamál.

Varðandi lágmarksíbúatöluna hugnast mér ekki beinlínis þessi leið, að taka einhverja eina tölu og setja í lögin eða breyta þeirri tölu sem er núna — þó að ég telji það alveg koma til greina — vegna þess að aðstæður eru svo mismunandi eins og komið hefur fram í þessari umræðu. Landfræðilegar aðstæður eru mjög mismunandi og þess vegna þarf kannski, að minnsta kosti áður en slík tillaga er lögð fram, að leggjast svolítið yfir Íslandskortið eins og hæstv. samgönguráðherra var að gefa í skyn að einhverjir hefðu viljað gera og skoða hvað henti á hverjum stað og það er hugsanlegt að hafa eitthvert svigrúm í því í lögunum ef menn svo kjósa. Enn og aftur fagna ég yfirlýsingu hans um þverpólitískt samstarf (Forseti hringir.) við endurskoðun þessara mikilvægu lagabálka.