136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[15:41]
Horfa

Flm. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í framsögu minni nefndi ég Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sérstaklega og ég ætla að gera tilraun til að ganga aðeins að hæstv. ráðherra með það mál.

Í fyrsta lagi má nefna það sem við köllum sérstakt framlag í jöfnunarsjóð sem hefur verið á fjárlögum síðustu árin en er ekki gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár og síðan það að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er útlit fyrir að framlag í jöfnunarsjóð muni dragast saman vegna minnkandi skatttekna ríkissjóðs. Ég vildi gjarnan heyra eitthvað aðeins frá hæstv. ráðherra um þessi mál. Er hann tilbúinn að tjá sig um það hvernig þessum málum verður fyrir komið vegna þess að við vitum það öll sem hér erum að sveitarstjórnarmenn ræða þetta mikið, hafa miklar áhyggjur af þessu og kalla eftir svörum um það hvernig þetta verður og helst að jöfnunarsjóði verði bætt tekjutapið sem blasir við. Þess vegna ítreka ég það við hæstv. ráðherra hvað hann er tilbúinn að tjá sig um þetta á þessu stigi. Þetta er brennandi mál sem við erum hér að ræða.