136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

stimpilgjald.

26. mál
[13:58]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Sem einn flutningsmanna frumvarps um stimpilgjald get ég lýst því að við í Frjálslynda flokknum teljum að þetta þurfi að gera strax. Þetta getur liðkað fyrir hjá fólki sem á í erfiðleikum og hefur möguleika á því að minnka við sig eða eitthvað þess háttar, eins og staðan er í þjóðfélaginu í dag.

Áður en ég held lengra vil ég spyrja hæstv. forseta hvernig standi á því að aðeins fjórir þingmenn eru í salnum sem stendur, að mér sjálfum meðtöldum, (Gripið fram í.) já, við erum samtals fimm. Þetta finnst mér ekki góð mæting og tek eftir því að í salnum eru hvorki ráðherrar né stjórnarliðar. (Gripið fram í.) Styður þú þessa ríkisstjórn, hv. þingmaður? (Gripið fram í.) Ég biðst afsökunar á að hafa ekki áttað mig á því að hv. þingmaður styður ríkisstjórnina, ég hélt að hún hefði skipt um skoðun, enda væri það eðlilegt miðað við aðstæður í þjóðfélaginu. (Gripið fram í.)

Það er erfitt að tala um slíkt mál sem er kannski ekki stórt í samanburði við þær aðstæður sem við búum við. Hér er atvinnulífið í rúst, þúsundir fjölskyldna komnar í þrot eða á leiðinni í gjaldþrot. Það er algjör upplausn í þjóðfélaginu og ráðamenn hafa ekki sagt almenningi til hvaða ráða eigi að grípa, hvernig eigi að leysa þessi mál. Engar tillögur hafa komið sem skipta fólk máli, engar lausnir. Sjálfsagt eigum við eftir að horfa upp á að ástandið versni, jafnvel með því að fleiri bankar fari á hausinn. Ríkisstjórnina vantar lausnir til að laga ástandið.

Þingsályktunartillagan sem við flytjum gengur út á að reyna að hjálpa aðeins til en er kannski dropi í hafið miðað við þær hörmungar sem skella á fólki þessa dagana. Ég vona að þingheimur sjái sóma sinn í því að veita frumvarpinu brautargengi.