136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

35. mál
[14:02]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum. Þetta frumvarp er flutt af þeim sem hér stendur og hv. þingmönnum Guðna Ágústssyni, Siv Friðleifsdóttur og Magnúsi Stefánssyni.

Markmiðið með frumvarpinu er að ljúki námsmaður námi á tilsettum tíma breytist þriðjungur af námslánum hans í styrk. Í greinargerð með frumvarpi þessu segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árunum 2003–2005 var brottfall nemenda í háskólum landsins á bilinu 19–57% eftir eins árs nám. Það var meira meðal nemenda ríkisháskólanna en þeirra einkareknu. Brottfall í svo miklum mæli er menntakerfinu dýrt og mikilvægt er að sporna við því með tiltækum ráðum. Öflug náms- og starfsráðgjöf er mikilvægur hlekkur í þeirri viðleitni en auk þess má nýta hagræna hvata til þess að hvetja námsmenn til að ljúka námi sem þeir hefja.

Víða á Norðurlöndunum tíðkast að verðlauna námsmenn fyrir að ljúka formlegu námi með viðunandi hætti og á tilskildum tíma með því að breyta hluta námslána þeirra í óafturkræfan styrk. Í því er fólginn sparnaður fyrir menntakerfið í heild þar sem hvati til þess að ljúka námi á tilsettum tíma er aukinn verulega og sparnaður næst á móti í menntakerfinu. Í frumvarpi þessu er lagt til að Íslendingar feti í fótspor frændþjóða sinna með viðlíka tilhögun. Íslenska leiðin verði sú að ljúki námsmaður námi samkvæmt reglum viðkomandi skóla og á tilskildum tíma breytist þriðjungur af námsláni hans í óafturkræfan styrk sem hvorki verði tekjutengdur né skattlagður. Víðast hvar á Norðurlöndunum eru námsstyrkir ekki bundnir því skilyrði að námsmaður ljúki formlegu námi en hér er lagt til að svo verði. Breyting af þessu tagi hvetur mjög til þess að námsmenn ljúki námi á þeim tíma sem skólinn miðar við. Þó er gert ráð fyrir að námsmenn sem ljúka námi ekki á tilskildum tíma en geta framvísað vottorði um lögmætar tafir njóti þessara breytinga. Lögmætar tafir eru skilgreindar af stjórn LÍN en gætu m.a. verið langtímaveikindi, fæðingarorlof og slys sem hamla námi tímabundið.

Áætlaður kostnaður við þessa lagabreytingu er um 1,6 milljarðar kr. … Árlegt framlag ríkisins er samkvæmt nýjustu útreikningum Ríkisendurskoðunar 51% af heildarútlánum sem skýrist af vaxtaniðurgreiðslum annars vegar og afföllum hins vegar. Í heildina mundi kosta rúma 3 milljarða kr. að breyta þriðjungi námslána í styrk en þar sem helmingurinn er nú þegar ríkisframlag vegna áður greindra ástæðna er breytingin hér metin á 1,6 milljarða kr. Á móti kemur sparnaður í menntakerfinu ljúki námsmenn námi á tilskildum tíma.

Gert er ráð fyrir að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna skeri úr um álitamál sem kunna að rísa vegna þessa. Líkt og öðrum úrskurðum stjórnar má skjóta þeim til málskotsnefndar sem skipuð er af menntamálaráðherra sbr. 5. gr. a í lögunum.

Að sama skapi þarf í þessu samhengi að huga að stöðu þeirra nemenda sem stunda lánshæft nám en kjósa að taka ekki lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Á síðasta námsári voru 16.000–18.000 nemendur í háskólum og sérskólum á háskólastigi á Íslandi. Lánþegar LÍN á sama tímabili voru rétt rúmlega 9.000 talsins. Einhver hluti þeirra námsmanna sem ekki taka lán hjá LÍN er ekki lánshæfur en þó má gera ráð fyrir að þúsundir námsmanna kjósi að framfleyta sér með öðrum hætti en með lántöku. Framsóknarmenn vilja því meta reynsluna af þessu máli þegar fram í sækir til að gæta jafnræðis meðal námsmanna og skoða alvarlega þann möguleika að jafna möguleika námsmanna til þess að hljóta styrk, bæði þeirra sem taka lán til framfærslu á námstíma og hinna sem kjósa að framfleyta sér með öðrum hætti. Mætti hugsa sér að þeir gætu sótt um styrk að námi loknu, þar sem tekið yrði tillit til tekna viðkomandi á námstímanum. Styrkirnir yrðu þó tekjutengdir með sama hætti og útreikningar og lánshæfi lántaka gera ráð fyrir.“

Hæstv. forseti. Eins og ég nefndi í upphafi er um að ræða mál sem við framsóknarmenn fluttum á Alþingi í fyrra og því hefur það hlotið meðhöndlun í hv. menntamálanefnd þingsins, að minnsta kosti var frumvarpið sent út til umsagnar. Ég held að sjaldan hafi verið eins brýnt fyrir námsmenn hér á landi að ríkisvaldið sýni viðleitni til að styðja þá og bæta kjör þeirra. Ég fer ekki nánar út í þau mál, það þekkja allir stöðu námsmanna í dag. Sorglegt er að þegar ég, í fyrirspurnatíma á Alþingi á dögunum, beindi þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvort hún væri reiðubúin að beita sér fyrir að bæta stöðu námsmanna erlendis var svarið nei, það stæði ekki til. Við vitum öll hvaða áhrif frjálst fall krónunnar hefur á stöðu þeirra og þurfum að svara þeirri grundvallarspurningu hvort við sem þjóð ætlum að senda fólk út til mennta sem kemur síðan heim og bætir stöðu samfélagsins allverulega. Við þurfum að styðja við það.

Eins og ég nefndi hefur menntamálanefnd sent málið út til umsagnar og það ætti því að vera hægur vandi fyrir menntamálanefnd Alþingis og Alþingi sjálft að afgreiða þetta mál með nokkuð snörum handtökum því að staðreyndin er sú að þær umsagnir sem bárust um þetta mikilvæga hagsmunamál fyrir stúdenta, fyrir menntakerfið og fyrir samfélagið eru allar á einn veg.

Ég vil til að mynda benda á umsögn Fjölbrautaskólans við Ármúla þar sem segir, með leyfi forseta:

„Undirritaður telur að breytingin sé jákvæð og komi til með að draga úr brottfalli og gera lánshæft nám skilvirkara.“

Undir það skrifar Gísli Ragnarsson, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla.

Frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti segir, með leyfi forseta:

„Við yfirlestur á þessu frumvarpi er það okkar skoðun að frumvarpið sé til mikilla bóta og þá sérstaklega 2. gr. þar sem rætt er um að breyta láninu að hluta í styrk ljúki námsmaður lokaprófum á tilskildum tíma. Það er og hefur lengi verið okkar skoðun að verðlauna eigi þá námsmenn sem ljúka námi á réttum tíma og það hljóti að vera hvetjandi fyrir þá að vita af þessum styrk ef þeir standa sig. Að styrkurinn sé skattfrjáls skiptir líka miklu máli. Brottfall úr skólum er alvarlegt mál og allar tilraunir til að sporna við því eru af hinu góða. Við styðjum eindregið þetta frumvarp og finnst það stórt skref í baráttu námsmanna fyrir betri kjörum.“

Undir þetta skrifar Kristín Arnalds, skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti.

Hæstv. forseti. Ég gæti nefnt fleiri framhaldsskóla sem hafa sent umsagnir þar sem þeir styðja þetta eindregið, t.d. Verkmenntaskólann á Akureyri. Ekki síst höfum við fengið mikil viðbrögð frá stúdentum í landinu, félögum stúdenta við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands, sem hafa eindregið hvatt til þess að Alþingi sýni viðleitni til að bæta kjör námsmanna, einkum á erfiðum tímum þegar mikilvægt er að stuðlað sé að því að fólk sæki sér menntun við hæfi. Við þurfum að líta á framlög til menntamála sem fjárfestingu en ekki útgjöld.

Hægt er að taka Danmörku sem dæmi um land með fáum auðlindum. Danir áttuðu sig á því fyrir mörgum áratugum að samfélagið yrði að byggja upp með því að treysta og tryggja menntun í landinu og er menntunarstig þeirra hátt og þeir vel samkeppnishæfir á mörgum sviðum. Við Íslendingar höfum á undanförnum árum fetað þá leið að leggja sífellt meiri áherslu á að fólk afli sér þekkingar og menntunar og við eigum að halda því áfram.

Gott dæmi í því samhengi er að árið 1997 voru um 7.000 í háskólanámi hér á landi, árið 2007 voru þeir 17.000, sem sýnir hvers lags gjörbreyting hefur orðið í menntamálum þjóðarinnar á einungis tíu árum. Við þurfum að spyrja okkur að því hvort við séum að gæta að jafnrétti til náms eins og staða mála er í dag. Ég hvet hv. menntamálanefnd til að skoða þessi mál mjög alvarlega því að ég heyri í mörgum námsmönnum, sama hvort það er á innlendum vettvangi eða erlendis, sem segja stöðu sína langt frá því að vera viðunandi og margir eiga erfitt með að framfleyta sér, sem getur leitt til þess að fólk geti ekki sótt sér menntun við sitt hæfi. Ef við erum almennt á því að stjórnvöldum beri að veita ungu fólki jöfn tækifæri til að ná sér í menntun og fleira í þeim dúr verðum við að skoða stöðu námsmanna í dag.

Ég vil fagna því sem hæstv. forseti þingsins sagði í upphafi þings í haust að öll mál ætti að afgreiða úr nefndum og öll mál ættu að koma til atkvæðagreiðslu hér í þingsal. Ég hef trú á að meiri hluti alþingismanna styðji bætt kjör námsmanna með þessum hætti. Samfylkingin talaði í svipaða veru á síðasta kjörtímabili, að styðja ætti námsmenn og bæta kjör þeirra á svipaðan hátt og við framsóknarmenn höfum lagt hér fram, og ég hef fulla trú á að þingmenn Frjálslynda flokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vilji bæta kjör námsmanna.

Það er annað en segja má um svör hæstv. menntamálaráðherra í fyrirspurnatíma um daginn þegar ég spurði hvort til stæði að bæta stöðu og kjör námsmanna sem nú dvelja við nám erlendis, þá var svarið einfalt nei. Því er mikilvægt og í raun og veru mikið framfaraspor fyrir Alþingi ef mál sem þetta festist ekki í þingnefnd, fari einungis í umsagnarferli en dagi að lokum þar uppi og verði ekki að neinu. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa og réttur þingmanna að mál sem þetta komi til endanlegrar atkvæðagreiðslu á vettvangi Alþingis enda hefur hæstv. forseti þingsins boðað slíkar breytingar.

Rétt er það sem kom fram í umræðunni hér áðan um stimpilgjöldin að erfiðlega árar í samfélaginu og vissulega gerir frumvarpið ráð fyrir ákveðinni útgjaldaaukningu. Ég bið menn að horfa til þess að það mun jafnframt gera nám skilvirkara en það er í dag og skila námsmönnum mun fyrr út á vinnumarkaðinn en ella og þar af leiðandi skila meiri fjármunum í ríkissjóð. Það mun líka, eins og skólamenn hafa bent á, auka hagræðingu í menntakerfinu og síðast en ekki síst draga úr brottfalli úr skólum landsins sem er markmið sem stjórnmálamenn hafa reynt að fylgja eftir á síðustu árum. Það er því rökrétt að samþykkja málið hér þar sem það er efnahagslega arðbært og mun í heild hafa mjög jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Við þurfum að auka menntunarstig þjóðarinnar til framtíðar til þess að treysta undirstöður samfélagsins og við þurfum, kannski síðast en ekki síst á tímum sem þessum, að stíga skref í þessa átt. Þetta er mjög mikilvægt mál og ég vonast til að þingmenn, sama hvar í flokki þeir standa, muni styðja frumvarpið og hv. þingmenn í menntamálanefnd þingsins greiða götu þess í gegnum þá nefnd. Það er skýr krafa frá námsmönnum í landinu að þetta mál hljóti brautargengi hér á þinginu. Fylgst er með málinu í meðförum Alþingis og við fáum ákveðin skilaboð frá skólum landsins um að þessi hugmyndafræði verði að veruleika. Eins og ég sagði dagaði þetta mál því miður uppi á síðasta þingi en ég hvet alla hv. þingmenn, og þá sérstaklega þingmenn í menntamálanefnd Alþingis, til að slá skjaldborg um frumvarpið og brýn nauðsyn er á að það verði afgreitt sem fyrst. Um það er skýr krafa hjá námsmönnum og þeim sem til þekkja.