136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

35. mál
[14:17]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa spurningu því það er einmitt það sem ég vil sjá að stjórnvöld geri nú, það er að koma til móts við mjög erfiða stöðu námsmanna sem eru í námi erlendis. Ef hv. þingmanni finnst það vera einkennilegur málflutningur úr ræðustóli Alþingis að við hlustum á þá sem eru erlendis í námi og geta varla framfleytt sér er hv. þingmaður náttúrlega ekki alveg í takt við kjósendur sína. Að sjálfsögðu þurfum við tímabundið, þegar krónan er í frjálsu falli, að koma til móts við þessa hópa. Ég get tekið sem dæmi að verði ekkert að gert þá sýnist mér að það muni hindra að margir af bestu námsmönnum okkar leiti sér menntunar á erlendum vettvangi vegna þess að efnahagslega standa þeir þannig að þeim er það ekki kleift.

Nú spyr ég hv. þingmann, sem er gamall og góður skólastjóri, hvort hún hafi ekki áhyggjur af því ef við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd sem þjóð að fólk hér á landi hafi ekki efni á því að leita sér menntunar á erlendum vettvangi. Það er ekki endilega jákvætt að við öflum okkar þekkingar einungis á innlendum vettvangi. Við þurfum að styðja við bakið á þeim sem eru erlendis við nám. Ég spyr hv. þingmann hvort hún hafi ekki heyrt frá námsmönnum erlendis sem bera sig illa vegna núverandi ástands. Ég vil þá upplýsa hv. þingmann, ef hún hefur ekki heyrt til þeirra samtaka sem eru fulltrúar þeirra sem eru við nám erlendis, að staða þeirra er mjög erfið og við þurfum að sjálfsögðu að skoða hana. Ég veit að hv. þingmaður getur tekið undir það með mér, þar sem hún var viðstödd þegar ég beindi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra, að ekki stendur til í ljósi þessarar þróunar að bæta kjör námsmanna erlendis.