136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

35. mál
[14:21]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við í stjórnarandstöðunni höfum beint því til stjórnvalda að komið verði til móts við mismunandi hópa vegna ástandsins sem nú er í efnahagsmálum. Ef hv. þingmaður heldur að ég geti í tveggja mínútna andsvari gert grein fyrir því hvernig ég ætla að bæta stöðu allra þjóðfélagshópa sem hafa þurft að líða fyrir það ástand sem nú er í efnahagsmálum þá er það einfaldlega ekki sanngjarnt. En það hefði verið fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni hvort hún styddi frumvarpið, hvort hún styddi að það kæmi í umræðu í þingið og til atkvæðagreiðslu því að að sjálfsögðu eiga námsmenn og menntastofnanir í landinu kröfu á því að vita hver afstaða þingmanna, sama hvar í flokki við stöndum, er til þessa máls. Eins og ég segi, það dagaði uppi í menntamálanefnd Alþingis þar sem hv. þingmaður sat á síðasta þingi og nú hljótum við að gera þá lágmarkskröfu að málið komi í það minnsta til þinglegrar meðhöndlunar í því formi að menn segi já eða nei við þeim hugmyndum sem hér eru uppi.

Ég vil enn og aftur taka fram að ekki er hægt í tveggja mínútna andsvari að gera grein fyrir því hvernig við í stjórnarandstöðunni ætlum að bæta kjör þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á því að hér ríkir mikil verðbólga og hátt vaxtastig. Ég held réttara sagt að ríkisstjórnin beri einhverja ábyrgð í þeim efnum þó að hún beri ekki algera ábyrgð en mér finnst ósanngjarnt að ætlast til þess að ég geri grein fyrir því hvernig við leysum heildarefnahagsvanda einstakra þjóðfélagshópa í tveggja mínútna andsvari, ágæti fyrrverandi sessunautur.