136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

35. mál
[14:23]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mál af því tagi sem hv þm. Birkir Jón Jónsson talaði fyrir er, má segja, til vinsælda fallið meðal stúdenta. Ég er ekki hissa á því að námsmannahreyfingin ljúki öll upp einum rómi og lýsi stuðningi við frumvarpið. Að því leyti má þá kannski segja að það væri óðs manns æði, jafnaðist á við pólitískt sjálfsmorð, að segjast ekki styðja frumvarp af því tagi sem hér er lagt fram. Ég skil flótta hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur í því þegar hún svarar ágengum spurningum hv. flutningsmanns á þann hátt að hún eigi eftir að gera upp við sig hvaða afstöðu hún muni taka til málsins.

Ég verð að segja að ég hef sjálf ekki gert upp hug minn um hvort ég styð frumvarpið eins og það er. Ég styð hins vegar að sjálfsögðu umfjöllun um málið í menntamálanefnd og mér þykir mjög gott, ég tek undir það með hv. framsögumanni þessa máls, að hæstv. forseti skuli hafi kveðið upp úr um að nú skuli stefnt að því að öll þingmannamál skuli afgreidd frá nefndum. Það er rétt, sem kom fram í máli hv. flutningsmanns, að málið fékk enga meðhöndlun í nefndinni á síðasta vetri en þó var það sent út til umsagnar. Nú höfum við þennan umsagnabunka sem við getum skoðað í nefndinni og tekið umræðu um málið og ég treysti því að það verði gert.

Hæstv. forseti. Á þessum viðsjárverðu tímum er málum einfaldlega þannig háttað að þeir sem eiga lítið og þeir sem skulda lítið verða sennilega þeir sem best koma út úr þeim hremmingum sem við nú göngum í gegnum. Þess vegna má segja að í prinsippinu sé það ósk mín að sem flestir stúdentar geti komist í gegnum kraftmikla háskóla með gott nám að baki án þess að hafa þurft að skuldsetja sig mikið. Mér finnst það vera atriði í þessu máli að það sé ekki keppikefli hjá stúdentum að fá námslán. Við eigum hins vegar því láni að fagna að eiga mjög öflugan lánasjóð og hann hefur eflst með hverju árinu sem líður. Á síðasta vetri vorum við að auka og rýmka rétt erlendra námsmanna sem eru stúdentar hér á Íslandi þannig að við höfum nánast á hverju ári upp á síðkastið verið að gera bragarbætur.

Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur unnið í náinni samvinnu við stúdenta að leiðréttingum á úthlutunarreglum þar sem smám saman er verið að færa mál til betri vegar, grunnframfærslan er eilíft vandamál og ég hef verið stuðningsmaður þess og talsmaður að hún sé rétt á hverjum tíma. Þegar maður les yfir núverandi úthlutunarreglur lánasjóðsins og horfir á grunnframfærslu námsmanna þá er hún á ársgrunni 1.876 þús., þ.e. innan við tvær milljónir. Það hljóta allir að sjá það í hendi sér að það er ekki einfalt fyrir námsmenn að framfleyta sér af þessu og þegar við erum að tala um níu mánaða framfærslu þá er framfærslan um það bil 100 þús. á mánuði. Ég er talsmaður þess að við tryggjum að grunnframfærslan sé alltaf raunsönn miðað við það verðlag sem við búum við í landinu á hverjum tíma. Það skiptir stúdenta mestu máli að framfærsla þeirra, eða það sem þeir fá í gegnum sumarvinnuna sína og síðan námslánin yfir vetrartímann, nægi fyrir framfærslu, að fólk þurfi ekki að vera að bæta við sig dýrum bankalánum ofan á námslánin.

Námslánin hafa verið með gríðarlega góðum kjörum. Þau eru verðtryggð. Þau eru með 3% vöxtum og það er sanngjarnt að endurgreiðslur hefjast ekki fyrr en tveimur árum eftir að námi er lokið. Það er mikill sveigjanleiki, það eru undanþágureglur eins og ég segi, það er mjög margt sem við getum mælt fyrir og stutt og talað vel um varðandi Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég tel það því vera gæfu okkar að eiga þennan sjóð.

Varðandi frumvarpið sem hér liggur fyrir sé ég ekki betur en verið sé að leggja til að við göngum lengra en nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum í því að styrkja námsmenn fjárhagslega. Nú er það svo að segja má að endurgreiðslan í kerfinu eins og það er í dag sé með þeim hætti að námsmenn, stúdentar, greiði aðra hverja krónu til baka af því sem þeir fá. Þeir greiða um það bil helminginn af því sem þeir fá til baka þegar reiknaðir eru vextir og verðbætur og tekið tillit til alls hvað varðar verðlagsbreytingar. Þegar öllu er á botninn hvolft má segja að um það bil helmingur námslána á Íslandi sé styrkur. Það er svipað hlutfall og á Norðurlöndunum. Ef við förum hins vegar í þær breytingar sem hv. þingmenn sem flytja þetta mál leggja til þá göngum við lengra en nágrannaþjóðir okkar. Við værum sem sagt, samkvæmt orðanna hljóðan í frumvarpinu, einungis að tryggja endurgreiðslu á 25% af láninu þannig að um það bil 75% af láninu yrði þá orðinn styrkur. Og ég segi: Það er mikil rausn.

Ég er tilbúin til að skoða þetta mál ofan í kjölinn með opnum huga og ég treysti því að við tökum góða umræðu um það í menntamálanefnd og fáum þessa útreikninga á hreint. Ég sé enga sérstaka ástæðu fyrir okkur til að ganga lengra en Norðurlandaþjóðirnar en það er ástæða til að við skoðum reikningsdæmið og athugum hvort það sem ég nú er að segja sé rétt, hvort það stenst raunveruleikann.

Við verðum líka að skoða aðra þætti í því sambandi. Það er spurning um það hvort þessi fjárhagsfaktor sé svona veigamikill hvað varðar brottfall úr námi. Ég er ekki sannfærð um það. Ég er ekki viss um að brottfallið sé, að jafnmiklu leyti og hv. flutningsmenn vilja vera láta, vegna fjárhagsástæðna stúdentanna. Það kann vel að vera að aðrir þættir komi til þannig að það er líka spennandi að skoða það. En brottfallið er virkilega flókið úrlausnarefni eins og t.d. segir í umsögn Háskóla Íslands um þetta mál þar sem menn taka undir það markmið frumvarpsins að draga úr brottfalli nemenda en segja jafnframt að innan Háskóla Íslands starfi nú nefnd sem hafi m.a. það hlutverk að greina fráhvarf nemenda frá námi og ástæður fráhvarfsins. Það liggur fyrir að einungis sumt af því sem iðulega er talið til brottfalls úr námi er vandi sem við þarf að bregðast, segja talsmenn Háskóla Íslands. Þeir segja einnig að annað eigi sér skýringar sem m.a. helgist af því hvernig skráningu nemenda er háttað t.d. þegar þeir skipta um námsferil, þ.e. að tæknilegar ástæður séu fyrir einhverjum hluta brottfallsins. Það þurfum við líka að athuga þegar við fjöllum um brottfall að við séum með réttar tölur og því skiptir miklu máli að við fáum niðurstöður þeirrar nefndar sem Háskóli Íslands hafði á síðasta vetri sett á laggirnar. Umsögn Háskóla Íslands er dagsett 26. nóvember 2007 og því skyldi maður ætla að niðurstöður þessarar nefndar lægju fyrir.

Það kemur jafnframt fram í umsögn Háskóla Íslands að ákveðins misskilnings gæti í frumvarpinu um það að reglur viðkomandi skóla um námstíma á einstökum námsleiðum séu háðar samþykki menntamálaráðherra. Það er tekið fram að hver háskóli fyrir sig setji reglur um námstíma innan ramma laga um háskóla og viðmið um æðri menntun og prófgráður séu á verksviði skólanna sjálfra en ekki menntamálaráðuneytisins. Þetta eru tæknileg atriði sem við getum að sjálfsögðu leiðrétt í meðförum nefndarinnar ef til þess kemur að málið verði afgreitt aftur til þingsins til afgreiðslu.

Svo vil ég kannski segja eitt, hæstv. forseti, um þann andblæ í greinargerð með frumvarpinu og í ræðu hv. flutningsmanns varðandi það að verðlauna nemendur, að verðlauna stúdenta. Að nota þetta orð, verðlaun, finnst mér orka tvímælis í þessu sambandi. Mér verður hugsað kannski sem uppalanda, sem móður, til barnanna minna. Það eru ekki uppeldisaðferðir sem ég hef aðhyllst eða mínir vinir og félagar að borga börnunum okkar fyrir að fá sér morgunmatinn sjálf á morgnana eða klæða sig í sokkana eða hvað svo sem annað það væri. Ég bið fólk aðeins að íhuga þann móral sem er fólginn í því að vera að verðlauna stúdenta fyrir að standa sig vel í námi með fjármunum. Þetta er hugleiðing sem kemur aðallega upp í hugann líka vegna þess sem er að gerast í samfélaginu og vegna þeirrar áherslu sem við þingmenn þurfum kannski að fara að leggja á önnur gildi en við höfum verið upptekin af fram til þessa eða upp á síðkastið.

Ég er sem sagt fylgjandi því að standa vörð um Lánasjóð íslenskra námsmanna, tryggja áfram öflugan stuðning við íslenska stúdenta, hvort sem þeir eru að stúdera hér á Íslandi eða í útlöndum, og það er sjálfstætt úrlausnarefni og gríðarlega mikilvægt að við nálgumst það vandamál sem íslenskir stúdentar í útlöndum standa frammi fyrir núna. Og ekki bara íslenskir stúdentar í útlöndum, við eigum líka Íslendinga sem draga fram lífið á örorkubótum í útlöndum. Ekki er hagur þeirra betri þannig að við verðum að horfa heildstætt á það mál allt og lýsa inn í þann vanda sem þar er við að glíma þó svo að við sjáum ekki út úr deginum hvað það varðar hvernig sá vandi þróast.

Ég ítreka það, hæstv. forseti, að ég tel okkur vera heppin að eiga LÍN. Við eigum að standa við bakið á honum sem öflugum lánasjóði fyrir námsmenn. Við eigum að tryggja að stuðningur hins opinbera við námsmenn sé öflugur og kraftmikill og nægur á hverjum tíma þannig að anda þessa frumvarps styð ég heils hugar. Hvernig við síðan útfærum það í löggjöf er ég tilbúin til að leggja mig fram um að skoða í menntamálanefnd.