136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

35. mál
[14:43]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka flutningsmönnum fyrir að flytja þetta frumvarp og lýsi því yfir að við þingmenn Frjálslynda flokksins lítum það jákvæðum augum og teljum ástæðu til að skoðað verði hvernig, í samræmi við þann anda sem boðaður er í frumvarpinu, eigi að koma á þeirri skipan sem verið er að tala um.

Hafa verður í huga þegar verið er að reikna út ákveðnar forsendur og hverju ríkið tapi með því að frumvarp þetta nái fram að ganga, þ.e. að ákveðnum hluta lána yrði breytt í styrki miðað við það að námsmaður ljúki prófi á tilskildum tíma, þá gleyma menn iðulega að taka inn í myndina það mikilvæga þjóðfélagslega hagræði sem felst í því að stytta námstímann. Það hefur aðeins verið minnst á það í þessum umræðum að um það sé að ræða. Í fyrsta lagi lækkar það að sjálfsögðu skólakostnað. Í öðru lagi kemur það líka viðkomandi einstaklingi til góða því hann kemur fyrr á vinnumarkaðinn og vinnur fyrir tekjum og er þar af leiðandi farinn að greiða til samfélagsins. Þegar talað er um að heildarkostnaður af þessu frumvarpi sé 1,6 milljarðar þá er í raun kannski ekki heildarmyndin tekin þannig að í raun er þessi kostnaður samfélagsins mun lægri þegar á allt er litið.

Þegar ég var formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands voru námsmenn í harðri baráttu fyrir því að námslán mundu ná því sem kallað var 100% af fjárþörf. Á þeim tíma fengu námsmenn á Íslandi 30% en námsmenn erlendis 70%. Mismuninn urðu þeir að brúa sjálfir og við töldum að þarna yrði að gera verulegar breytingar á. Mál hafa sem betur fer þróast með þeim hætti að þetta er ekki lengur viðfangsefni námsmannahreyfingar eða stjórnmálamanna vegna þess að þessi markmið hafa náðst fyrir löngu. Nú er hins vegar spurning hvernig sé eðlilegt að hafa hlutina þannig að hægt sé að verðlauna og/eða íþyngja námsmönnum ekki um of sem þurfa nauðsynlega á því að halda að fá námslán þannig að þeir geti sem fyrst orðið virkir þátttakendur án þess að vera bundnir við mikla skuldaklafa. Þá er það vissulega veruleg hvatning til að ljúka námi með eðlilegum hætti á sem stystum tíma að taka upp ákvæði eins og þau sem hér er fjallað um. Spurning getur hins vegar verið um það hvort hér eigi að miða við að tala um tilskilinn tíma, hvort eigi að skilgreina það með einhverjum öðrum hætti eða velta fyrir sér jafnvel að þau verðlaun — því við getum ekki talað um þetta með öðrum hætti en þannig að með því að breyta hlutaláni í styrk sé verið að verðlauna viðkomandi sem fær þann létti á skuldum sínum — þ.e. hvort eigi að miða við að viðkomandi ljúki þá ef til vill námi á skemmri tíma en venjulega er miðað við. Við erum því ekki að miða við hinn almenna venjulega tíma heldur við að þarna sé verið í raun að verðlauna þá sem leggja sig fram um að ljúka námi á sem stystum tíma. Mér finnst það atriði hljóti að koma til ákveðinnar skoðunar.

Að sjálfsögðu geta komið til breytilegar aðstæður hjá fólki. Hér er vísað til þess að menn framvísi vottorði um lögmæt forföll sem hafi tafið námið. Þá er spurningin hvað teljum við að geti verið eðlileg og lögmæt forföll sem valdi því að viðkomandi haldi þeim rétti að geta fengið ákveðnum hluta af námsláni breytt í styrk þrátt fyrir að námsframvindan hafi orðið önnur, þ.e. að menn ljúki því ekki á tilskildum tíma. Þá finnst mér einmitt vanta nákvæmari skilgreiningar í lagafrumvarpið sem má út af fyrir sig bæta úr við meðferð frumvarpsins í nefnd. Hvað er átt við með lögmætum forföllum í þessu tilviki? En á heildina litið tel ég að það sé til bóta að hafa hvata eins og þann sem er meginefni þessa frumvarps og tel því eðlilegt að skoða hvernig þeim málum geti verið best fyrir komið þannig að þeir námsmenn sem standa sig, ljúka sínu námi með eðlilegum hætti — eðlileg framvinda — geti notið þess í einhverju.