136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

35. mál
[14:49]
Horfa

Samúel Örn Erlingsson (F):

Frú forseti. Það hefur sennilega aldrei verið mikilvægara en nú að horfa til framtíðar. Þar tek ég sannarlega undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni. Það á við um það sem rætt var um hér fyrr í dag, stimpilgjöld við fasteignakaup og það á svo aldeilis við um nám og kjör fólks við þá iðju að afla sér framtíðarmenntunar. Það er mikilvægt að staldra ekki um of við þær mínútur sem nú líða þegar menn haldast í hendur hvar sem þeir standa í flokki við að hamla gegn mótlætinu heldur trúa áfram á framtíðina og þess vegna er sennilega aldrei nauðsynlegra en nú að ræða mál eins og þessi. Við þurfum að horfa til framtíðar og ég held að það sé alveg sama hvar menn standa í pólitík, þeir sjá framtíðina í aukinni menntun þjóðarinnar, auknum tækifærum sem í því felast. Það þarf að örva það kerfi sem við búum við hvar sem er og líka í skólakerfinu. Það er mjög þjóðhagslega hagkvæmt að ljúka námi á um það bil tilskildum tíma. Það er og á að vera hagkvæmt fyrir samfélagið, fyrir skólakerfið og fyrir þá sem eru í námi.

Það þarf að örva þann hraða af ýmsum ástæðum. Hér var vikið áðan einmitt að kjörum á námslánum. Þau eru verðtryggð og þá lít ég nú svo á að með því sé endurgreiðslan tryggð, þ.e. ef fólk nær að greiða til baka lánið sitt á fullu verði þá er endurgreiðslan komin. Það er hins vegar leigan fyrir peningana sem þetta snýst um og mér skilst að námslánin núna séu með 3% vöxtum. Þegar ég fékk námslán á sínum tíma þá voru ekki vextir á námslánum en þau voru verðtryggð.

Það er reyndar sannarlega mögulegt að námsmenn greiði að fullu námslán sín ef námið er ekki því lengra og taki ekki því lengri tíma því endurgreiðslan er meðal annars háð því að námi sé lokið. Hún er líka háð því hvaða tekjur fólk hefur eftir að námi lýkur. Þess vegna er hagkvæmt fyrir endurgreiðsluna að námið klárist á tilskildum tíma og fólk fari síðan út á vinnumarkaðinn og hefji endurgreiðsluna. Þetta er líka til hagræðis í skólakerfi eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson, flutningsmaður þessarar tillögu, kom svo sannarlega vel inn á og þar með þarf, þegar fjallað er um þetta mál nákvæmar í nefnd til dæmis, að reikna þetta inn í dæmið. Það þarf að reikna það inn í dæmið að sá sem lýkur námi á tilskildum tíma hefur fyrr endurgreiðslu. Hann hækkar að öllum líkindum ævitekjur sínar. Hann borgar meira af því sem á að borga. Þar með er þetta orðið hagkvæmt fyrir alla þá sem að þessu koma.

Við skulum líka átta okkur á því að það er mikilvægt, hvort sem menn vilja kalla það verðlaun, styrk eða ávinning eða hvað það er, að örva námsmenn til þess að ljúka námi á tilskildum tíma af þeim ástæðum sem ég nefndi. Skyldi það ekki vera örvandi fyrir þá námsmenn sem berjast til dæmis við það að halda skuldabyrði sinni niðri, vilja ekki taka of mikil lán og vinna töluvert mikið með námi? Þeir lenda stundum í því að þurfa að seinka námi einmitt þess vegna. Þá er kominn ávinningur og ástæða til að vinna kannski ekki allt of mikið með náminu.

Ég trúi því að þetta frumvarp sé til góðs. Ég trúi því að við sjáum ávinning af því í framtíð og ég held að við sjáum ávinning af því í öllu kerfinu. Við vitum líka, eins og ég nefndi áðan, að vextir hafa sannarlega verið breytilegir af námslánum og það er ekkert sem segir að þeir geti ekki hækkað eins og ég nefndi hér áðan. Einu sinni voru þeir ekki. Síðan fóru þeir í 1%. Nú eru þeir 3% og það er ekki svo óskaplega langt frá 3% upp í það sem við mundum kalla æskilega vexti með verðtryggingu. Það er ekki nema eitt ár, kannski eitt og hálft frá því að menn tóku framtíðarlán til húsakaupa með 4,15% vöxtum og það þóttu fín kjör fyrir þá sem veittu lánin líka þannig að ég tel að þetta styðji þá stefnu og þann veruleika að námslán skili sér til baka því það er ósköp æskilegt og kannski þá það sem eftir stendur skili sér og til þess liggja þær ástæður að fólk útskrifast fyrr, fer fyrr á vinnumarkað, vinnur þá lengur á ævi sinni og er þar með betur í stakk búið til að skila til þjóðfélagsins því sem að því hefur verið rétt.