136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

35. mál
[14:55]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur átt sér stað um það mál sem við höfum rætt hér og endurspeglast í því meðal annars að þingmenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi hafa tekið þátt í þessari umræðu. Umræðan nú um þetta mál var miklu málefnalegri og betri, að mér finnst, en á síðasta þingi þar sem stjórnmálaflokkarnir lentu í þessu hefðbundna karpi um af hverju ekki væri löngu búið að gera þetta og fleira í þeim efnum. En ég fagna því sérstaklega hversu jákvæður vilji hefur birst hjá hv. þingmönnum í því að þetta mál verði tekið til ítarlegrar meðhöndlunar á vettvangi menntamálanefndar og þess að það komi síðar til afgreiðslu á Alþingi til samþykktar eða synjunar því hér er um það stórt mál að ræða að það er einfaldlega ekki hægt að kæfa það í hv. nefnd ár eftir ár.

Ég er mjög ánægður með þessa umræðu eins og ég sagði áðan. Ég er sammála því sem kom fram í umræðunni varðandi framfærslugrunn námsmanna. Ég held að það sé tími til kominn að menn leggist í heildarendurskoðun á því og það strax. Við vitum að verðlag er að hækka óðum hér á landi í ljósi nýjustu atburða og það er alveg ljóst að framfærslugrunnur LÍN er ekki í takti við raunveruleikann í dag. Að sjálfsögðu þurfa námsmenn að lifa eins og aðrir þjóðfélagshópar og í raun og veru eru hjá mörgum þeirra reglur lánasjóðsins þeirra kjarasamningur og rétt eins og menn ræða nú við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins þá þurfa stjórnvöld að taka upp samráð við námsmannahreyfingarnar um það hvernig við komum þeim málum í viðunandi horf á erfiðum tímum.

Ég er sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur í snörpu andsvari áðan að að sjálfsögðu hugsum við ekki bara um námsmenn en það er einn þáttur í því vandamáli sem við horfumst í augu við að við þurfum að styðja betur við bakið á námsmönnum rétt eins og svo mörgum öðrum þjóðfélagshópum. Það hefur komið fram í málflutningi okkar framsóknarmanna að við þurfum samstöðu til að fara í slíkar aðgerðir. Við höfum boðið fram útrétta sáttarhönd til að koma til móts við sem flesta hópa á erfiðum tímum. Ég vona að ríkisstjórnin muni taka í þá útréttu sáttarhönd. Við samþykktum mjög umdeilt frumvarp hér á dögunum sem átti að koma í veg fyrir að hér yrði efnahagslegt öngþveiti. Ég held að við höfum gert rétt í þeim efnum að standa með ríkisstjórninni að því máli því að nú sem aldrei fyrr þarf þjóðin að sjá að stjórnmálamenn, sama hvar í flokki þeir standa, geti staðið saman því saman verðum við að takast á við þá efnahagslegu vá sem yfir okkur vakir og það er ekki hægt að klára umræðu sem þessa nema nefna það örlítið á nafn því það er einfaldlega þannig að nú eru erfiðir tímar. En við framsóknarmenn erum reiðubúnir til að koma að lausn þeirra mála í samstarfi við aðra stjórnmálaflokka. Nú skiptir varla máli hvort við stöndum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við þurfum öll að standa saman. Það er markmiðið og þess vegna þakka ég þá ágætu umræðu sem átti sér stað um þetta mál. Ég treysti orðum þeirra þingmanna sem tóku til máls í umræðunni að þessu máli verði fylgt fast eftir á vettvangi menntamálanefndar Alþingis þannig að við getum komið til móts við námsmenn, ekki bara hér á landi heldur líka erlendis eins og ég nefndi. Hugsið þið ykkur, námsmenn á erlendri grundu eru að borga allt að 26% yfirdráttarvexti til að fá lán hjá LÍN vegna þess að þau eru greidd út eftir á. Að sjálfsögðu þurfum við að horfa á öll þessi mál og ég veit að þeir þingmenn sem hafa talað í þessari umræðu eru reiðubúnir til þess og það er mjög brýnt að skoða heildstætt málefni námsmanna rétt eins og annarra þjóðfélagshópa eins og nú árar í samfélaginu.

Ég þakka þessa umræðu og góðar undirtektir við þetta frumvarp sem við framsóknarmenn höfum lagt fram á Alþingi og er eitt af forgangsmálum þingflokks framsóknarmanna.