136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

almannatryggingar.

31. mál
[15:00]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Almannatryggingakerfið var á sínum tíma sett á stofn í þeim tilgangi að fólk tryggði ævikvöld sitt og legði í sameiginlegan sjóð landsmanna sem aftur greiddi því þokkalega til framfærslu og lífsviðurværis þegar starfsævinni væri lokið.

Það mál sem ég flyt og mæli fyrir, og meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Grétar Mar Jónsson og Jón Magnússon, snýr að því að taka upp frítekjumark á lífeyristekjur. Þannig hagar til nú eftir ýmsar breytingar á lögum um almannatryggingar að búið er að setja 100 þús. kr. frítekjumark á atvinnutekjur þeirra sem eru 67 ára og eldri. Það á einnig við um öryrkja, þ.e. 100 þús. kr. á mánuði skerða nú ekki almennar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, hvorki tekjutenginguna né grunnlífeyrinn, gamla ellilífeyrinn sem menn kalla svo.

Um næstkomandi áramót munu taka gildi lög sem kveða á um að séreignarsparnaður landsmanna sem varðveittur er í sérstökum sjóðum á nafni hvers einstaklings, en ekki samtryggingarsjóðirnir sem ég fjalla hér um, skerði ekki bætur frá almannatryggingum. Frá og með næstu áramótum getur fólk tekið út séreignarsparnað sinn án þess að bætur frá almannatryggingum, tekjutengingu eða grunnlífeyri verði skertar.

Nú á hins vegar eftir að taka upp frítekjumark og auka það er viðkemur almennum lífeyrissjóðum og miðar tillagan að því. Í frumvarpinu er sem sagt lagt til að tekið verði upp sams konar frítekjumark á lífeyristekjur og lífeyrissjóði og er á atvinnutekjum, bæði hvað varðar aldraða og öryrkja, og að 1. janúar 2010 verði komið á 100 þús. kr. frítekjumark á lífeyristekjur fyrir alla úr almennum lífeyrissjóðum. Er þá orðið nokkurt samræmi milli fólks sem hefur atvinnutekjur og þess sem fær tekjur sínar úr lífeyrissjóði. Það eru margar ástæður fyrir því að fólk sem komið er á efri ár getur ekki stundað vinnu á vinnumarkaði og aflað sér tekna.

Við leggjum til í frumvarpinu að þeim áfanga verði náð í tveimur skrefum: Á næsta ári, 1. janúar 2009, taki gildi 50 þús. kr. frítekjumark vegna tekna úr lífeyrissjóði en síðan komi ákvæði frumvarpsins um 100 þús. kr. frítekjumark til framkvæmda að fullu 1. janúar 2010 eins og áður sagði. Þá megi lífeyrisþegar fá 1.200 þús. kr. greiðslu á ári úr lífeyrissjóði sínum án þess að bætur almannatrygginga skerðist.

Ég tel að aðgerðin sé sanngjörn í ljósi þess sem gert hefur verið varðandi lagfæringar á almannatryggingalöggjöfinni um tekjur og skerðingarreglur á undanförnum missirum. Ég minni á í því sambandi að stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili lagði sameiginlega fram sérstaka tillögu til eflingar stöðu ellilífeyrisþega með því að taka upp 75 þús. kr. frítekjumark. Það hefur nú sem betur fer verið betrumbætt og sett á 100 þús. kr. frítekjumark jafnt fyrir aldraða og öryrkja og er það vel. Eftir sem áður greiða lífeyrisþegar fullan skatt af tekjum úr lífeyrissjóði, þ.e. 35,72% miðað við skattprósentu í dag en njóta ekki þess sama og aðrir sem hafa sparað, að greiða 10% af fjármagnstekjuskatti af inneign sinni á fjármagnsreikningum.

Það er að vissu leyti rétt að hluti af inngreiðslu í lífeyrissjóð er undanþeginn skattgreiðslu þegar hann er greiddur og það er það sem nemur framlagi launamanns og atvinnurekanda. Það breytir hins vegar ekki því að þegar menn hafa átt lífeyrissparnað sinn í varðveislu hjá lífeyrissjóðum eða öðrum sjóðum í áratugi er stærstur hluti af hinni sameiginlegu eign sem þeir fá svo greidda úr lífeyrissjóðunum og séreignarsjóðum orðnar fjármagnstekjur. Þar þyrfti að leita samræmis en tillagan sem hér flutt snýr ekki að þeim þætti málsins. Hún snýr fyrst og fremst að því að tekið verði upp frítekjumark á lífeyristekjur eins og nú þegar er búið að taka upp á atvinnutekjur aldraðra og öryrkja og jafnframt á séreignarsparnað um næstu áramót.

Við, flutningsmenn þessarar tillögu, teljum að hér sé um mikið réttlætismál að ræða og muni verða til þess að tekjur fólks úr lífeyrissjóði nýtist því betur og að rauntekjur manna til þess að lifa af tekjum almannatrygginga og tekjum úr almennum lífeyrissjóðum muni batna verulega. Hér er auk þess um eðlilegt samræmingar- og réttlætismál að ræða, eins og ég gat um.

Ég tel að við bregðumst hér við mjög þörfu máli og það er jafnvel enn þarfara í dag en ella miðað við stöðuna í þjóðfélaginu í þeim þrengingum sem fram undan eru. Enn frekari ástæða er til að fylgja þessu máli fram og lögfesta þá gjörð sem hér er lögð til. Það liggur í því að talsverðar líkur eru á því að lífeyrissjóðir verði fyrir verulegum skerðingum á eignum sínum. Eignir lífeyrissjóðanna eru jú ekkert annað en það fé sem lífeyrisþegarnir hafa greitt inn í lífeyrissjóðina. Þar af leiðandi verða lífeyrisþegarnir fyrir skerðingu á tekjum. Miðað við þær fréttir sem við fáum frá forustumönnum lífeyrissjóðanna verða lífeyrissjóðirnir líklega fyrir þó nokkuð mikilli skerðingu vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í íslensku þjóðfélagi. Sumt af því fé sem lífeyrissjóðirnir eiga hefur verið varðveitt í eignafyrirkomulagi, m.a. í fjármálastofnunum sem allar líkur eru á að nú tapist.

Hvað er þá til ráða í almennum lífeyrissjóðum þegar lífeyrissjóður á ekki fyrir framreiknuðum tryggingalegum skuldbindingum sem lífeyrisþegarnir eiga ella rétt á? Þá segja lög um almenna starfsemi lífeyrissjóða að stjórn viðkomandi lífeyrissjóðs skuli meta tryggingafræðilega stöðu fyrir framtíðina miðað við hvort lífeyrissjóðurinn eigi fyrir skuldbindingum sínum. Yfirleitt er reiknað með 3,5% ávöxtun lífeyrissjóðanna. Ég hef séð í blöðum, m.a. í morgun, að forustumenn lífeyrissjóða telja að það geti alveg eins komið til þess þegar á næsta ári að skerða verði réttindi fólks úr almennum lífeyrissjóðum. Lög um almenna lífeyrissjóði kveða á um að ef staða lífeyrissjóðs er þannig að hann á ekki fyrir skuldbindingum sínum og vantar meira en 10% upp á að hann eigi fyrir því sem hann hefur gengist undir í réttindum lífeyrisþega, ber stjórninni tafarlaust að grípa til aðgerða í viðkomandi lífeyrissjóði. Ef sú viðmiðunartala liggur á bilinu 5–10% um lengri tíma að mati stjórnar lífeyrissjóðsins ber stjórn lífeyrissjóðsins einnig að grípa til aðgerða.

Við höfum séð á undanförnum árum að þegar slík staða hefur komið upp, sem er allt eins líklegt að gerist nú vegna erfiðleika okkar Íslendinga almennt á fjármálamörkuðum og tapaðra eigna, skerðast lífeyrisréttindi lífeyrisþeganna og greiðslur lækka. Það er auðvitað ekki björt framtíð fyrir ellilífeyrisþega sem eiga jafnvel ekki nægjanlegt fé til framfærslu eins og því miður er oft jafnvel þótt menn leggi saman þær greiðslur sem þeir eiga í lífeyrissjóði og tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins í formi ellilífeyris og tekjutryggingar.

Sú tillaga sem hér er lögð fram af þingmönnum Frjálslynda flokksins er heldur betur tímabær í núverandi ástandi. Við leggjum til þá skynsamlegu leið að taka hana í áföngum þ.e. á tveimur árum þannig að kostnaðurinn af þessari leið verði þá mun minni fyrir ríkissjóð á næsta ári en ef hún væri farin í einu skrefi. Hún mun þó auðvitað kosta ríkissjóð eitthvað. Yfirlýsingar okkar þingmanna allra og ráðherra á undanförnum dögum hafa jú gengið til þess að vernda sparnað landsmanna. Margir eiga aðeins sparnað sinn í lífeyrissjóðum eða séreignarsjóðum. Þó að tillagan hafi ekki eingöngu verið flutt af því tilefni sem nú er í þjóðfélagi okkar er því miður sennilega um tekjuskerðingu að ræða hjá lífeyrisþegum vegna núverandi aðstæðna.

Við leggjum hér til að staða manna verði jöfnuð, að tekjurnar valdi ekki skerðingu hvort sem þær koma úr lífeyrissjóði, af atvinnutekjum eða úr séreignarsparnaði og að samræmi verði þar á milli miðað við 100 þús. kr. tekjur sem valdi ekki skerðingu á bótum Tryggingastofnunar.

Við teljum að hér sé eðlileg samræming á ferðinni miðað við það sem víða hefur gerst á undanförnum árum og að hér sé um mikið hagsmunamál ellilífeyrisþega og lífeyrisþega almennt að ræða því að ákvæðið mundi að sjálfsögðu einnig ná til örorkulífeyrisþega. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir það fólk sem ekki getur verið á vinnumarkaði og á ekki annan kost en að lifa af almennum bótum frá Tryggingastofnun ríkisins, sem ég vil nú frekar kalla tekjur — tekjutryggingu, lágmarksbætur og ellilífeyrisbætur — og af þeirri inneign sem fólk hefur lagt í almenna lífeyrissjóði. Þeir voru og eru hugsaðir til þess að bæta stöðu fólks þegar það kemst á efri ár.

Það er vissulega talið að á næstu árum muni lífeyrissjóðirnir bera uppi verulegan hluta þeirra tekna sem ellilífeyrisþegar munu njóta á komandi árum. Sú staða er ekki komin enn þá þó að henni sé spáð 30 ár fram í tímann, þá verði tekjur eldri borgara samsettar þannig að þrír fjórðu hlutar teknanna komi úr lífeyrissjóðum en aðeins einn fjórði úr almannatryggingakerfinu. Menn gera ráð fyrir að það gerist eftir um það bil þrjá áratugi.

Það kann vel að vera að það gangi eftir. Tillaga sú sem nú er flutt skiptir geysilega miklu máli og mikið undir lagt varðandi hagsmuni ellilífeyrisþega að hún fái jákvæða afgreiðslu hér í hv. þingi því að hún kveður á um frítekjumark vegna lífeyristekna sem þýðir í raun og veru það sem við erum öll að fást við, að hafa rauntekjur sem duga okkur til framfærslu. Rauntekjur sem við getum horft til dugi okkur til framfærslu eftir skerðingar og skattgreiðslur.

Hæstv. forseti. Lagfæringu á tryggingakerfinu lýkur ekki með tillögu okkar en við teljum að hún sé til mikilla bóta varðandi stöðu ellilífeyrisþega á komandi árum og eðlilegt samræmingarmál miðað við það sem gert hefur verið á undanförnum missirum og þingum.