136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

almannatryggingar.

31. mál
[15:21]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég þarf ekki að fara yfir þetta frumvarp. Félagar mínir hafa gert það. Við í Frjálslynda flokknum lofuðum því fyrir síðustu kosningar að leggja þetta til og reyna að bæta hag öryrkja og aldraðra, ellilífeyrisþega, og við stöndum við það. Auðvitað standa margir núna, sérstaklega við þessar aðstæður, líka illa eins og öryrkjar og aldraðir, eins og kom hér fyrr fram í dag, til dæmis námsmenn sem fá lánin greidd út í íslenskum krónum og svo náttúrlega fjölskyldur sem eru í þúsundatali núna að missa húsnæði sitt og lenda í gjaldþrotum, jafnvel með fullt hús af börnum, og eru að lenda í verulegum hremmingum. Við í Frjálslynda flokknum munum reyna eins og við getum og eftir mætti að flytja hér tillögur sem munu bæta kjör allra þeirra sem verða núna fyrir verulegum búsifjum.

Það er auðvitað mjög sorglegt til þess að vita, hæstv. forseti, að núna eru aðeins tveir þingmenn auk forseta í salnum. Maður gæti haldið að þingmenn væru úti um allan bæ að leysa út peningana sína úr bönkunum af því að restin af þessum bönkum er kannski að hrynja. Maður skilur ekki alveg áhugaleysið á þessum málum sem eru þó til bóta fyrir þá sem gætu fengið það. Maður skilur ekki í því af hverju stjórnarflokkarnir taka ekki þátt í þessari umræðu og eru að minnsta kosti hérna í salnum til að hlusta á þetta því að þeir hefðu gott af því að taka þátt í þessari umræðu og setja sig inn í málefni þessa fólks sem við erum þó að reyna að laga stöðuna hjá og berjast fyrir. Ég vona bara að þetta frumvarp fái brautargengi í Alþingi.