136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

umræða um stöðu mála á fjármálamarkaði.

[10:36]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það er ekki neinn venjulegur dagur. Ég bjóst við því að hæstv. forsætisráðherra sýndi okkur þá virðingu að ávarpa þingheim við þessar aðstæður þegar allt í bankakerfinu hefur farið á versta veg. Ég geri kröfu til þess að við í stjórnarandstöðunni sem afgreiddum þingmál á skömmum tíma til að búa til björgunarbát á mánudag fáum að eiga fundi með forustumönnum ríkisstjórnarinnar reglulega. Alvarleikinn er sá að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa flutt þingið á blaðamannafundi úti í bæ og þar hafa þeir talað af sér. Einn hæstv. ráðherra sýndi hinum vestræna heimi og vinum okkar í nágrannalöndum fingurinn í þeirri umræðu. Forsætisráðherra sjálfur upplýsti að nú væru nýir vinir mikilvægir þannig að það hafði allt mikil áhrif. Ég geri kröfu til þess að við tökum þetta mál upp í mjög alvarlegri umræðu í dag því að nú þurfa Íslendingar á því að halda að eiga forustu. Ég geri kröfu til þess að forsætisráðherra og ríkisstjórnin með embættismönnum hitti okkur í stjórnarandstöðunni, fari yfir stöðu málsins og síðan verði haldinn þingfundur þar (Forseti hringir.) sem við ræðum stöðuna eins og hún er og höfum öll gögn málsins í höndum. Við höfum engin gögn, engar upplýsingar þrátt fyrir samstarf okkar við stjórnarflokkana á mánudaginn var.