136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

umræða um stöðu mála á fjármálamarkaði.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þessi sjónarmið eiga auðvitað fullan rétt á sér og þessi fyrirspurnatími er auðvitað ekki hugsaður í þingsköpum til þess að fara í ítarlega umræðu um alvarleg mál. Það vitum við náttúrlega. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar ábendingar. Ég brást strax við þegar í mig var hringt upp úr kl. 10 og ég beðinn að vera hér og það er sjálfsagt mál. En það er líka sjálfsagt mál að funda með stjórnarandstöðunni og koma sér saman um hvert framhaldið verður í Alþingi. Hlutirnir breytast mjög hratt úti í þjóðfélaginu, það sem nú er að gerast, og um það þarf að hafa ágætt samráð eins og gert hefur verið í fyrri hluta þessarar viku.

Ég vil svo bara bæta því við, út af ummælum hv. þingmanns í fyrri ræðu hans, að ég tel það eitt af skylduverkum mínum eins og nú standa sakir að útskýra málið fyrir erlendum blaðamönnum. Þótt það kosti mig tvo klukkutíma á dag tel ég það þess virði vegna þess að fátt er mikilvægara núna en að koma réttum skilaboðum til umheimsins.