136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[11:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í raun er engin stofnun sem fjármögnuð er á fjárlögum frá Alþingi óháð Alþingi og ríkjandi meiri hluta vegna þess að það er meiri hlutinn sem samþykkir fjárveitingar og þetta vita menn að sjálfsögðu í viðkomandi stofnun. Ég er ansi hræddur um að þegar upp kemur sú staða að menn þurfa að óska eftir meiri fjárveitingum og jafnframt setja fram einhverjar áætlanir og gefa sér forsendur þá muni þeir í bakhöndinni hafa það í huga að það sé betra að þær forsendur séu í takt við það sem stjórnvöld vilja þannig að þetta er alltaf mjög fínn línudans sem við erum að dansa. Það er ekki þar með sagt að ég sé á móti þessari hugmynd eða að ræða hana alla vega. Ég hlakka til ef hún kemur inn í mína nefnd. Þá mun ég ræða kosti og galla þess að hafa svona opinbera stofnun til að gefa þjóðhagsspá. Við erum með þetta núna í mörgum stöðum, hjá ASÍ, Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði. Bankarnir fyrrverandi voru með svona hagdeildir. Nú veit maður ekki hvað gerist um það þannig að það er (Gripið fram í.) víða verið að búa til þjóðhagsspár — fjármálaráðuneytið að sjálfsögðu — og menn geta þá tekið mismunandi sjónarmið og mismunandi forsendur úr öllum þessum spám og fundið eitthvert meðaltal. Ég hefði talið það vera betra. En auðvitað er það miklu dýrara. Ég held að það sé alveg sjálfsagt að skoða kosti og galla þessa frumvarps.