136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[11:25]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans orð og þau skiptir máli af því að hv. þingmaður er formaður efnahags- og skattanefndar og fær málið á sitt forræði í hv. þingnefnd þannig að mér finnst jákvætt og gott að heyra að hv. þingmaður vill skoða þetta með opnum huga og ég bind miklar vonir við það.

Það er auðvitað rétt að það getur verið gagnlegt að fá álit mismunandi aðila og geta borið hluti saman. En við erum nú einu sinni lítil þjóð með takmörkuð efni og verðum það kannski enn frekar á næstu árum. Ætli það sé ekki hyggilegt að reyna að finna vinnu af þessu tagi farveg þannig að við getum með sem minnstum tilkostnaði greint okkar þjóðhagsgögn, flokkað þau, unnið úr þeim og notað þau í okkar ákvarðanatöku við fjárlagagerð og fjárstjórn í landinu.

Ég leyfi mér að halda því fram að þessi tvístraða vinna á undanförnum árum og sérstaklega eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður hafi ekki gefist vel. Ef við förum aðeins yfir það hverjir þetta eru þá eru það að sjálfsögðu fjarmálaráðuneytið sem birtir þjóðhagsspá. Það er Hagstofan sem safnar þarna ýmsum gögnum sem aðrir þurfa svo að sækja til hennar. Það er Seðlabankinn sem birtir sín rit um efnahagsmál. Það eru samtök á vinnumarkaði, ASÍ, BSRB, Samtök atvinnulífsins. Það eru greiningardeildir bankanna. Það eru hagfræðistofnanir í háskólanum og það eru sjálfstæð ráðgjafarfyrirtæki sem menn grípa stundum til þess að kaupa af vinnu vegna þess að hana er ekki að hafa. Hún er ekki í boði þá annars staðar. Þingflokkum er iðulega vísað á það að þeir fái sérfræðifé og þeir geti látið vinna slíka hluti fyrir sig úti í bæ sem þeir hefðu áður á dögum Þjóðhagsstofnunar sent þangað til skoðunar og útreikninga. Ég gerði það oft á sinni tíð starfandi til dæmis í meira en áratug í efnahagsnefnd — eða (Forseti hringir.) efnahags- og viðskiptanefnd sem þá hét og sat þar með hv. þm. Pétri Blöndal lengi — að senda Þjóðhagsstofnun tillögur til útreiknings og álits. Ég fagna því að hv. þingmaður tekur vel í málið.