136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[11:59]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Um leið og ég tek undir það að mikilvægt er að gæta kynjajafnréttis í raunar öllum stjórnum og öllum ákvarðanatökum á vegum hins opinbera og annars staðar hvernig sem það er gert, með beinu valdboði eða öðruvísi — ég hef reyndar efasemdir um beint valdboð í þeim efnum. Ég held að það sé frekar þróun sem eigi um leið að stuðla að — þá verð ég að gera athugasemdir við þá söguskoðun hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að efnahagsvandi heimsins og efnahagsvandi þjóðarinnar sé einungis körlum að kenna. Vissulega er það rétt að karlar hafa í meiri hluta verið við stjórnvölinn. En ég held hins vegar að það sé rangt hjá Kolbrúnu að halda því fram, og það er í raun alveg risastór yfirlýsing, að vandræðin séu vegna þess að stjórnendur hafi verið karlar, að það sé einhver eðlislægur þáttur í því að vera karl að drífa þjóðfélög í svona mikið öngstræti. Ég held að ekki sé hægt að rökstyðja það. Ég held að það sé ekki hægt að rökstyðja það að slíkur munur sé á körlum og konum þegar kemur að því að stjórna almennt, bara að almennt sé munur milli karla og kvenna í eðli þeirra að það hefði ekki getað gerst undir stjórn kvenna að við hefðum ratað í slíkt öngstræti.

Ég vil til dæmis benda á að þetta er ekki bara þjóðhagslegt vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Þetta er líka vandamál sem varðar rekstur heimilanna. Heimilin hafa skuldsett sig. Ætlar hv. þingmaður að halda því fram að bara karlmenn hafi ráðið þeim ákvörðunum innan heimilanna til dæmis? Það er auðvitað fjarstæða að tala með þessum hætti.

Maður spyr sig líka: Á maður að fallast á að samræðustjórnmál séu einungis kvenleg gildi? Ég aðhyllist til dæmis samræðustjórnmál og ég er karlmaður að því er ég best veit.