136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[12:01]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það kemur mér sannarlega ekki á óvart. Ég geri ráð fyrir að flestir karlmenn geti tekið heils hugar undir ræðu hv. þingmanns.

Hins vegar fjölgar femínistum ört í hópi karla og er það fagnaðarefni. Því það er sameiginlegt verkefni karla og kvenna að koma á kynjajafnrétti í samfélaginu. Það gerist ekki fyrr en körlum í hópi femínista fjölgar en það er að gerast og er ánægjulegt.

Um það hvort við séum stödd í öngstræti í efnahagsmálum vegna þess að karlar hafi verið við stjórnvölinn vil ég segja að rannsóknir sýna að fyrirtækjum þar sem konur eru í meiri hluta eða áberandi í stjórnun, sem forstjórar eða í stjórnum, vegnar betur en þeim sem eingöngu hafa karla við stjórnvölinn. Stórar og alþjóðlegar rannsóknir hafa bent til þess að hv. þingmaður hafi rangt fyrir sér en ég rétt, að það sé meiri hætta á því að rangar ákvarðanir séu teknar ef einungis annað kynið stjórnar. Þetta á líka við ef einungis konur standa við stjórnvölinn, þá henta ákvarðanirnar kannski ekki körlum og þá ekki heldur heildinni.

Ég tel að hægt sé að styðja það með rannsóknaniðurstöðum að ákvarðanir í stjórn efnahagsmála hafi verið rangar vegna þess að konur hafi ekki komið að þeim. Þær hefðu verið betri ef konur hefðu átt aðgang þar að. Ergo: Karlarnir hafa tekið röngu ákvarðanirnar.