136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[12:03]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur fyrir að líklega hafa mjög margir karlar tekið rangar ákvarðanir. Við deilum um það hvort þeir tóku rangar ákvarðanir vegna þess að þeir voru karlar eða ekki. Ég tel það vera varhugaverðan málflutning að taka einhvern veginn allt sem er gott eins og samræðustjórnmál og eflingu fagþekkingar og kalla femínísk gildi. Ég get ekki skrifað undir það því ég er menntaður í heimspeki, fagi sem er undirlagt af karlmönnum, og þar ríkja þessi gildi. Í stórum hluta þess sem við lesum t.d. í stjórnmálaheimspeki og hefur verið skrifað af körlum síðustu 2.000 árin er þessi gildi að finna í ríkum mæli. Á þau er ekki hlustað, kannski vegna þess að ekki gætir kynjajafnræðis. Ég get tekið undir að það gæti verið vandamál.

Hér lýtur þetta auðvitað að öðru sem er mjög varhugavert í allri umræðu í samfélaginu vegna þess að hér tæpir hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir á því að það er mjög sterk tilhneiging til þess að kenna ákveðnum strákum um efnahagsvandræðin sem við erum í eða, eins og það er orðað, um að hafa drifið allt til fjandans. Þetta er fordómafull umræða og lýsir því að einhverjir strákar hafi fengið of mikil völd til að keyra allt til fjandans en ég held að það eigi ekki við rök að styðjast. T.d. horfðum við á banka sem viðurkennt var að væri vel rekinn fara á hliðina í nótt. Hann var vel rekinn af strákum. Ég ætla ekki að halda því fram að hann hafi verið vel rekinn af strákum vegna þess að þeir voru strákar. Ég held einfaldlega að í bankakerfinu eins og alls staðar annars staðar (Forseti hringir.) sé að finna bæði skynsama og óskynsama menn og konur.